18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3887)

908. mál, áhættuiðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins 1947

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Þessi fsp. barst mér fyrir fáum dögum síðan, og vildi þá svo óheppilega til, að forstöðumaður Tryggingastofnunar ríkisins var farinn burt úr bænum og verður fjarvistum um skeið, en kemur þó væntanlega í næstu viku. Ég gat því ekki aflað mér þeirra upplýsinga, sem ég hefði kannske átt að gefa í sambandi við þessa fsp., en vildi þó til bráðabirgða gefa þær upplýsingar, sem fáanlegar voru. Ég sneri mér til deildarstjórans í tryggingastofnuninni út af fsp. og vil ég með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa upp bréf, sem mér hefur borizt frá honum varðandi þessa fyrirspurn:

„Með bréfi dags. 16. febr. 1948, hefur hið háa ráðuneyti — af tilefni fyrirspurnar Skúla Guðmundssonar alþingismanns — beðið um upplýsingar, hverju numið hafi iðgjöld og bætur slysatryggingarinnar árið 1946, svo og um þær upplýsingar, sem tiltækilegar eru um áhættugjöld samkv. 113. gr. almannatryggingalaganna og slysabætur samkvæmt sömu lögum á árinu 1947. Samkvæmt reikningum Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 1946 hafa iðgjöld iðntryggingar numið kr. 3918341,96, en bætur iðntryggingar kr. 1114009,18. Iðgjöld sjómannatryggingar fyrir sama ár voru kr. 1709081,40, en bætur kr. 1571731,04.

Samtals hafa slysatryggingaiðgjöld skyldutrygginga árið 1946 því numið kr. 4727423,36, en bæturnar kr. 2685740,22.

Fyrir árið 1947 hafa dauðaslys enn ekki öll verið gerð upp að fullu, þ. e. verðmæti allra lífeyrisgreiðslna hefur enn ekki verið reiknað út, en lauslegt yfirlit bendir til þess, að bætur vegna slysa á árinu 1947 muni nema um 2 millj. króna. Eru þar í ekki taldar tryggingarupphæðir, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt vegna ólögboðinna trygginga á árinu 1947, en þær voru óvenju miklar, og nægir þar að benda á flugslysin þrjú, sem á því ári urðu hér á landi.

Reikningar hafa enn eigi borizt frá innheimtumönnum vorum, en ætla má, að álögð iðgjöld samkvæmt 113. gr. verði sem næst því 5 millj. kr.

Gera má því ráð fyrir, að allverulegur afgangur verði á áhættuiðgjöldum ársins 1947, en á það skal bent, að það ár hafa færri sjómenn drukknað af íslenzkum skipum en dæmi eru til áður, og enn fremur, að reynslan hefur sýnt, að eftir því, sem atvinnuskilyrði eru betri í landinu, verða tiltölulega færri slys, sem bæta þarf, miðað við vinnutíma.

Vér leyfum oss að benda á þessi tvö atriði, sem bætt hafa afkomu þessa þáttar almannatrygginganna mjög s. l. ár, en sem vér verðum að vera viðbúnir að geti breytzt til hins verra.“

Þannig eru þessar upplýsingar, sem ég hef fengið hjá slysatryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins, og eins og ég tók fram, er þess varla að vænta, að það sé hægt með vissu að upplýsa, hvað útgjöldin mundu nema í sambandi við slysatryggingar á árinu 1947, og ekki heldur hægt að segja um það með vissu, hvað iðgjöldin yrðu, þegar búið væri að gera upp allar iðgjaldainnheimtur fyrir árið 1947. En það, sem kemur í ljós hvað bæði árin snertir, eins og bent er á í bréfinu, er, að það hefur orðið verulegur tekjuafgangur af slysatryggingum, bæði raunverulegur varðandi árið 1946 og útlit fyrir, að svo verði fyrir árið 1947. Ég vil hins vegar undirstrika það, sem segir í niðurlagi þessa bréfs og er viðtekin regla í öllum tryggingum, að ekki má dæma út frá reynslu 1 eða 2 ára, hvorki í þessum tryggingum né öðrum, því að árin eru mjög mismunandi í þessu tilliti. Sum eru á þann veg, að iðgjöldin gera miklu meira en hrökkva fyrir bótagreiðslum, en svo koma ef til vill önnur ár, þar sem iðgjöldin hrökkva ekki til greiðslna á bótum. Það er því mjög óvarlegt als álykta út frá því, þótt afkoma slíkra trygginga hafi orðið góð um eins eða tveggja ára skeið, því að það þarf miklu lengri reynslutíma til slíks.