18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (3888)

908. mál, áhættuiðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins 1947

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið. Ég hafði að vísu ekki spurt um útkomuna á þessum þætti í rekstri stofnunarinnar fyrir árið 1946, en hins vegar var gott að fá þær upplýsingar, sem hann gaf um þetta. Samkv. þeim virðist sem þarna hafi orðið rúmlega 2 millj. kr. mismunur á árinu 1946 á innheimtum iðgjöldum og þeim bótum, sem stofnunin hefur orðið að greiða vegna slysatrygginganna, sem iðgjöldin hafa numið hærri upphæð á því ári. Sömuleiðis, samkv. upplýsingum hæstv. ráðh. um árið 1947, sem ég spurði um, hefur orðið mikill tekjuafgangur, en þó eru það að nokkru ágizkanir enn sem komið er. Vildi ég í þessu sambandi beina því til hans, hvort ekki mætti vænta, að hann gæti gefið þinginu um þetta nákvæmari upplýsingar, áður en langt um líður. Gert er ráð fyrir því, að bótagreiðslur nemi um 2 millj. kr., en innheimt slysatryggingaiðgjöld tæpum 5 millj. kr., og er þarna því um ca. 3 millj. kr. mismun að ræða, sem iðgjöldin nema hærri upphæð heldur en það, sem stofnunin hefur þurft að greiða í bætur. Nú er það svo samkv. þessari 113. gr. tryggingal., eins og ég vitnaði í áðan, að þar segir, að ákvarðanir þessara iðgjalda, sem lögð eru á atvinnurekendur, eigi að miða við, að þau hrökkvi fyrir bótum og kostnaði, sem stofnunin eigi að greiða. Hins vegar er það ekki í samræmi við l., að þessi þáttur í starfsemi stofnunarinnar sé tekjustofn fyrir tryggingasjóð að öðru leyti, og mér skilst því, að þar sem innheimt hafa verið miklu hærri iðgjöld heldur en þurft hefur til þess að greiða slysatryggingabætur, þá eigi þeir, sem greitt hafa, þarna inni verulegar upphæðir hjá stofnuninni, sem hljóta að koma þeim til góða, annaðhvort á þann hátt, að iðgjöldin verði nú ákveðin miklu lægri, eða þannig, sem ég álít vera réttara, að þeim, sem greitt hafa þessi óþarflega háu iðgjöld árið 1947, yrði endurgreitt, um leið og nýju gjöldin væru innheimt. Ég álit það sjálfsagðan hlut, að þannig verði þetta framkvæmt, enda skylt að gera það samkv. l., og væri gott að fá að heyra það frá hæstv. ráðh., hvort hann hefur ekki sama skilning á þessu ákvæði l., að þessi rekstur eigi að gerast upp út af fyrir sig.