25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í D-deild Alþingistíðinda. (3892)

163. mál, Bessastaðakirkja

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Bessastaðakirkja er ein af elztu kirkjum landsins. Hún mun byggð aðallega á árunum 1790–1795 fyrir samskotafé og framlög úr konungssjóði. Gerð kirkjunnar mun ekki hafa verið breytt verulega, frá því hún var byggð, og mun helzta breytingin frá upphafi vera sú, er amtmannsstúkan svo nefnda var tekin úr kirkjunni í tíð Gríms Thomsens. Hér var því um hið merkasta guðshús að ræða, byggingu, sem hafði mikið menja- og minningagildi og sjálfsagt var því að varðveita, þótt kirkjunni hafi því miður ekki ávallt verið haldið svo vel við sem skyldi og brýn nauðsyn hafi því verið á ýmsum endurbótum til að forðast frekari skemmdir á hinni merku byggingu.

Fyrir nokkru barst mér til eyrna, að undanfarið hefði verið unnið að mikilli og dýrri „viðgerð“ á Bessastaðakirkju. Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel viðgerð á Bessastaðakirkju hafa verið sjálfsagða, ég tel, að hún hefði átt að fara fram fyrir löngu vegna aldurs og virðingar hússins, enda allt of lítið að því gert hér að leggja rækt við gamlar byggingar, og enn sjálfsagðara að gera vel við kirkjuna, eftir að Bessastaðir urðu forsetasetur. Ég tel sjálfsagt, að þeirri viðgerð hefði verið hagað þannig, að hinni gömlu gerð kirkjunnar væri haldið, gripir þeir, sem þar voru, væru þar áfram, þótt nauðsynlegt væri að endurbæta þá, enda sumir þeirra hinir merkustu munir, svo sem hinn meira en tveggja alda gamli prédikunarstóll.

Framkvæmdum öllum hefur þó verið hagað mjög á annan veg, svo að rangt er í sjálfu sér að tala um viðgerð á Bessastaðakirkju. Það er verið að gera nýja kirkju. Þótt ótrúlegt sé, hefur öllu innan veggja í kirkjunni verið rutt burt, hinum ævagamla. prédikunarstól, altari, altaristöflu, kórgrindum, bekkjum, tígulsteinagólfi og legsteinum. Ekkert mun eiga að vera um kyrrt úr hinni gömlu kirkju annað en skírnarfontur og legsteinn Magnúsar Gíslasonar, sem þó hefur verið rifinn af gröf amtmannsins og greyptur inn í vegg. Annar mjög merkur steinn, legsteinn Páls Stígssonar, sem áður var í veggnum, hefur verið tekinn þaðan. Allir þessir gripir munu að vísu hafa komizt í vörzlu þjóðminjavarðar, og munu þeir eftir hrakninga hafa hafnað í hermannaskála á háskólalóðinni. Í stað þess, sem áður var í kirkjunni, mun hafa verið unnið að því að smíða annað nýtt, og hefur mér skilizt, að kostnaður við þessar framkvæmdir sé farinn að nálgast hálfa millj. kr., þótt ekki muni þeim nærri lokið enn.

Húsameistari ríkisins hefur haft þessar framkvæmdir með höndum. Ég hef leitað í fjárlögum undanfarinna ára að fjárveitingu til slíkrar endurbyggingar Bessastaðakirkju. Ég hef enga slíka fjárveitingu fundið. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hefur hún ákveðið þessar framkvæmdir? Hefur hún lagt fyrir húsameistara ríkisins eða veitt honum heimild til að tortíma einni elztu kirkju á landinu og svo að segja gera nýja í hennar stað? Hefur hún ákveðið að verja til slíks verks því stórfé, sem það er búið að kosta, og þá með hvaða heimild fjárveitingavaldsins? Og hvað er gert ráð fyrir, að framkvæmdirnar muni kosta alls?

Í grein, er birtist í einu af dagblöðum bæjarins fyrir nokkrum dögum, undir nafni húsameistara ríkisins, herra Guðjóns Samúelssonar, er því haldið fram, að samkomulag hafi verið gert um það, að enginn kostnaður við framkvæmdirnar á Bessastöðum skyldi tekinn í fjárlög. Hér er um furðulegar upplýsingar að ræða. Þar eð nafn háttsetts embættismanns stendur undir þessari grein, verður að taka hana alvarlega, og leyfi ég mér því einnig að spyrja hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn.: Er eitthvað til í því, að slíkar ákvarðanir hafi verið teknar, og hver hefur þá gert það? Það er mér víðs fjarri að telja eftir fé, sem varið er til skynsamlegra og þjóðnýtra framkvæmda á Bessastöðum. Ég er í hópi þeirra, sem vilja búa sem bezt og veglegast að þjóðhöfðingjanum. En ég kann ekki við, að slíkum framkvæmdum sé haldið utan við lög og rétt, og þykir undarlegt, ef svo er ekki um fleiri hv. þm.

Í grein þeirri er getið var, er því haldið fram, að fáir þeirra muna, sem úr kirkjunni hafa verið teknir, hafi verið nothæfir, auk þess sem flestir þeirra hafi verið ósmekklegir og ólistrænir. Ég held, að sárafáir, sem í kirkjuna hafa komið á síðustu árum, geti verið þessu sammála, og hinir sérfróðustu menn eru þessu líka ósammála. Ég hef átt tal um þetta mál við fyrrverandi og núverandi fornminjavörð. Þeir telja báðir, að sjálfsagt hafi verið að haga viðgerð kirkjunnar þannig, að hinni gömlu gerð hennar væri haldið og hinir gömlu munir notaðir áfram, enda flestir ágætlega nothæfir, ef vel væri gert við þá. Fyrrverandi fornminjavörður mun því hafa mótmælt þessum framkvæmdum bæði munnlega og skriflega við húsameistara, þótt að vettugi hafi verið virt.

Hér hafa því átt sér stað hin hörmulegustu mistök, sem fyllsta ástæða virðist til þess að átelja, ef ekki koma fram sérstakar skýringar af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég veit ekki hvort hægt er hér úr að bæta og koma kirkjunni aftur í hið fyrra horf. Mér væri þökk á, ef hæstv. ríkisstj. gæti veitt upplýsingar um, hversu langt verkinu er komið og hvort tök væru á að breyta um stefnu, ef hún þá er mér sammála um, að stefna sú, sem fylgt hefur verið við þessar framkvæmdir, sé röng.