25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (3893)

163. mál, Bessastaðakirkja

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Fyrirspurn sú, sem hér liggur fyrir, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: ;,Eru breytingar þær á Bessastaðakirkju, sem nú er unnið að, gerðar að fyrirlagi ríkisstjórnarinnar? Hversu mikið er áætlað, að þær muni kosta, og hversu mikið hefur þegar verið greitt vegna þeirra?“

Eftir því, sem ég hef getað séð, hafa verið höfð þessi afskipti af málinu: Fyrst er til minnisblað í ráðuneytinu, er greinir frá því, að í júní 1945, í tíð fyrrverandi kirkjumrh., hafi forsrh. samþykkt að gera við Bessastaðakirkju fyrir 180000 kr. og hafa samráð um það við fjmrh. Næst er bréf, dags. 7. ágúst 1945, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsameistari ríkisins

Reykjavík, 7. ágúst 1945.

Eftir ósk háttvirts kirkjumálaráðherra hef ég athugað, hverjar breytingar og aðgerðir ég tel nauðsynlegt að gera á Bessastaðakirkju, svo að telja megi, að hún sé virðulegt guðshús á forsetastaðnum. Aðgerðir og breytingar eru þessar:

1. Allt gólf kirkjunnar og bitar undir því er mjög fúið og þarf að endurnýjast.

2. Bekkir allir eru ljótir, og þarf að setja nýja úr eik.

3. Prédikunarstóll, altari og grátur verður allt að endurnýjast.

4. Í kirkjunni er engin altaristafla, og verður því að fá hana.

5. Kirkjan er óupphituð, og geri ég ráð fyrir, að hún verði upphituð með rafmagni. Í hana verður einnig að setja rafljósalögn og tilheyrandi lampa.

6. Í kirkjuna þarf að setja söngpall og prestsherbergi.

7. Tvennar nýjar hurðir úr eik er nauðsynlegt að gera.

8. Loft kirkjunnar er úr timbri og er mjög gisið og þarf mikilla endurbóta eða jafnvel að setja alveg nýtt loft (sjá áætlun 2 og 3).

Fyrir utan áðurnefnt eru ýmsar skemmdir á gluggum og múr, sem þarf endurbótar við. Fyrrnefndar aðgerðir og breytingar má auðvitað gera misjafnlega vel og fullkomið, allt eftir því, hvað vanda skal til kirkjunnar. Ég læt fylgja 3 kostnaðaráætlanir ráðuneytinu til leiðbeiningar, og getur það þá skorið úr, eftir hverri áætluninni aðgerðin og breytingarnar skulu framkvæmdar.

Virðingarfyllst

Guðjón Samúelsson.

Kirkjumálaráðherra.“

Síðan hefur skrifstofustjóri ráðuneytisins skrifað húsameistara bréf frá kirkjumrn., dagsett 22. marz 1946, þar sem áætlun 3 er samþykkt og lagt fyrir húsameistara ríkisins. Guðjón Samúelsson, að framkvæma hana.

Ég hef ekki rannsakað, hvort byrjað hefur verið á verkinu áður, en þessi áætlun er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

1.

Gólf, steypt og hellulagt með

renningum

kr.

38.000,00

2.

Bekkir úr eik

35.000,00

3.

Altari, prédikunarstóll og grátur

20.000,00

4.

Altaristafla

18.000,00

5.

Hitun og ljósalögn

28.000,00

6.

Söngpallur og prestsherbergi

15.000,00

7.

Tvennar hurðir

6.000,00

8.

Bæsað bitaloft

35.000,00

Skemmdir

15.000,00

Samtals

kr.

210.000,00

Nokkru eftir að ég tók við kirkjumrn., kynnti ég mér dálítið málið, og var mér sagt, að verkinu væri það langt komið, að bundið væri, hvert framhaldið yrði.

S. 1. sumar spurðist ég fyrir um kostnaðinn, og var hann þá orðinn 240000 kr., en áætlað, að þurfa mundi til viðbótar 85000 kr., og kostnaður yrði því alls 325000 kr.

Svo var núna, síðast á árinu þessari byggingu á kirkjunni ekki lokið. Þá bað ég um skrifaða skýrslu um þetta frá húsameistara ríkisins til samanburðar við það, sem ég þá hafði látið athuga um það, hvað samþ. hafði verið í ráðuneytinu. Þessi skýrsla er undirrituð af Birni Rögnvaldssyni, sem er húsameistari við margs konar verk á vegum ríkisins. Og hér er kafli úr því bréfi, sem er upplýsandi um málið. Bréfið er dagsett 10. jan. 1948. Þessi kafli hljóðar svo:

„Skýrsla yfir endurbyggingu á Bessastaðakirkju samkvæmt teikningu húsameistara ríkisins.

1. Allt tréverk rifið úr kirkjunni, gólf uppfyllt með rauðamel og steypt, á steininn límt eikarparkett.

2. Sett nýtt bitalag ásamt sperrum úr tré og járni, gert samkv. teikningu Sigurðar Thoroddsens verkfræðings.

Á þak lagður steinn enskur með listum undir, á turnþak lagður eir, þakrennur og niðurföll úr eir. Ofan á bitalag klætt með 1“ plægðum borðum, gömlu bitarnir réttir af að neðan og klæddir krossvið, á milli bita klætt með fölsuðum panel.

3. Höggvin málning og múrhúðun af öllum veggjum utan og innan, veggirnir húðaðir á ný og málaðir með steinfarfa.

Steypt ofan á hliðarveggi kirkjunnar upp á efri brún hins nýja bitalags.

4. Lögð raflögn til ljósa og hitunar, ofnar á veggjum og undir kirkjubekkjum, gert samkvæmt teikningu Valgarðs Thoroddsens verkfr., Hafnarfirði.

5. Vatnssalerni komið fyrir undir stiga í turn með frárennsli í sjó og vatnsleiðslu frá vatnsbóli Bessastaða.

6. Smíðaðar tvennar hurðir, allir bekkir, altari, altaristafla, prédikunarstóll, stúka fyrir prest og stúka fyrir söngfólk; allt smíðað úr eik samkv. teikningu húsameistara ríkisins.

7. Steypt stétt frá kirkjudyrum að hliði á girðingu. Tröppur við kirkju lagðar steinhellu (norsk). Steyptir stólpar við hlið á girðingu með hlið úr járni.

8. Anddyri kirkjunnar klætt með þilplötum, stigi í turn afþiljaður, og allt málað.

Eftirfarandi atriði ekki fullgerð:

1. Verið að leggja eikarparkett á gólfið. Þegar það er búið, verða bekkir, prédikunarstóll og prestsstúka sett niður, allt þetta er þegar fullsmíðað.

2. Eftir að draga í rafmagnsrör og tengja ofna undir bekkjum og ljós á veggjum.

3. Altari og altaristafla í smíðum.

4. Eftir að mála anddyri kirkjunnar.

5. Stétt að kirkju og jarðvinna utanhúss eftir.“

Enn fremur segir hér í skýrslunni:

„Árið 1945 var verkið áætlað á kr. 210000,00 og þá samþykkt af viðkomandi ráðuneyti að láta endurbyggja kirkjuna. Í þeirri áætlun var ekki gert ráð fyrir þaksteini á þak og eir á turnþak, ekki nýju bitalagi og sperrum með tilheyrandi dregurum og járnstífum, svo og steypu ofan á veggi í sambandi við bitalag og sperrur, þetta gert vegna þess, að gamla þakið bar ekki þaksteininn.

Þá var ekki gert ráð fyrir að höggva málningu og múrhúðun af veggjum utan og innan og múrhúða að nýju.

Ekki gert ráð fyrir salerni með tilheyrandi leiðslum, og margt fleira hefur verið gert, sem upphaflega var ekki tekið með.“

Þá er sagt, að búizt sé við, að verkinu verði lokið í febrúarmánuði og að útlagður kostnaður hafi verið 1. jan. nú í vetur kr. 470000,00, en kostnað, sem eftir er, sé ekki gott að áætla nákvæmlega, en ráðgert að hann verði 50 til 60 þús. kr.

Þetta eru nú þau gögn og sú vitneskja, sem ég hef um þetta mál. Annars hef ég ekki um þetta fjallað að öðru leyti heldur en að afla þessara upplýsinga, þar sem þessar ráðstafanir eru allar fastbundnar, áður en ég hafði nokkuð með þessi mál að gera. Á þessu, sem fram hefur verið tekið, finnst mér, að hv. fyrirspyrjandi geti séð það, sem gleggst er hægt að sjá af plöggum ráðuneytisins um það, hvað ákvarðað hefur verið um þetta af ráðuneytisins hendi. Ég skal aðeins geta þess, að eins og af þessu má sjá, þá hefur kirkjubyggingin þarna verið alveg endurbyggð. Og það er náttúrlega ekki einkennilegt, þó að það kosti talsvert mikið, þegar í slíkar framkvæmdir er ráðizt. Það má sjálfsagt deila um það fram og aftur, hvort það hefði átt að fara nákvæmlega svona að eða öðruvísi heldur en farið var að þessu. Ég skal engan dóm á það leggja. Ég hef ekki heldur rannsakað þetta mál frá því sjónarmiði og ekki heldur, af hverju stafar sá aukni kostnaður, sem hér hefur á orðið frá því, sem gert var ráð fyrir í byrjun í áætlun nr. 3 frá 1945. Um það treysti ég mér ekki til að gefa upplýsingar, þar sem ekki liggja fyrir um það upplýsingar frá fagmönnum.