25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3895)

163. mál, Bessastaðakirkja

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ástæðu til að lýsa ánægju minni yfir þeirri fsp., sem hér hefur komið fram, því að eins og tekið hefur verið fram, þá hafði fjvn. ónógar upplýsingar um viðreisn Bessastaða.

Ég álít það hrósvert af hæstv. ríkisstj. og forseta Íslands að hafa lagt mikið fé í að bæta staðinn. Það er enginn vafi, að þegar ríkisstj. gerir það upp á sína ábyrgð að útvega peninga til þessara framkvæmda án þess að hafa til þess fjárveitingu á fjárl., þá getur það ekki verið bein sök hæstv. ráðh., vegna þess að þessir sömu menn hafa ekkert gert til að bæta aðstöðu Alþingis og stjórnarráðsins, ef frá er talið það, sem utanþingsstjórnin lét gera fyrir forgöngu Vilhjálms Þórs. Ég álít það dugnað og myndarskap að reisa Bessastaðaheimilið við, en það hlýtur að vera fyrir forgöngu forseta sjálfs. Það getur ekki verið fyrir forgöngu þeirra manna, sem láta okkur sitja hér enn við sömu slæmu kjörin og bæta ekki heldur neitt úr fyrir stjórnarráðið. Ég álít, að það hafi verið rétt og myndarlega gert af forseta að beita sér fyrir að reisa við þennan stað. En þessi fsp. er um svo lítið atriði af þessum endurbótum, að ég hef hugsað mér að bera fram aðra fsp. um aðrar endurbætur, sem þar hafa verið gerðar.

Ég held, að það sé nokkur yfirsjón hjá hv. 4. þm. Reykv. að sjá svo mjög eftir þeim hlutum, sem fluttir hafa verið úr Bessastaðakirkju. Mér virðist hv. þm. ekki átta sig á, að eftir að búið er að breyta Bessastaðaheimilinu, þá var erfitt fyrir forseta að sýna gestum kirkjuna. Hún virðist hafa þegar í upphafi verið illa úr garði gerð eftir því, sem Vilhjálmur Þ. Gíslason segir í Bessastaðasögu sinni. Það sýnir, hvílík ræktarsemi kirkjunni hefur verið sýnd, að kirkjulegar myndir hafa verið teknar þaðan og útskorinn rammi fundizt þar úti á haug. Sá maður, sem fyrstur mun hafa hreyft þessu máli, er prófessor Guðbrandur Jónsson. Hann skrifaði um það grein, sem hann ætlaði að koma á framfæri í einhverju blaði, en greinin hefur ekki birzt. Hann vill láta flytja aftur í kirkjuna þá muni, sem af henni voru teknir. Prédikunarstóllinn var dottinn í sundur. Það virðist hér um bil sannað, að allan þann tíma, sem kirkjan hefur staðið, hafi hún lekið, gólfið fúið og svellað á veturna og allt svo vanhirt sem verða mátti, þegar forsetinn kom þangað. Það þurfti að negla spýtur og spelkur á prédikunarstólinn til að hann héngi saman. Altaristafla var þar, en vantaði neðstu fjölina. Taflan átti að sýna Krist í grasgarðinum, en fæturna vantaði á kristsmyndina, svo að menn, sem í kirkjuna komu, hefðu getað ímyndað sér, að taflan hefði átt að sýna annan atburð úr lífi Krists, nefnilega himnaförina, því að myndina vantaði allt samband við jörðina.