25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3898)

163. mál, Bessastaðakirkja

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Út af ummælum, sem féllu hjá hv. 4. þm. Reykv., vil ég geta þess, þar sem hann talaði um að nauðsynlegt væri, að eitthvað væri gert til þess að tryggja, að slíkt endurtæki sig ekki, þá vill svo vel til, að 12. febr. 1947 voru staðfest l. um viðhald fornra mannvirkja og byggðasöfn, þar sem stjórnarvöldunum og þjóðminjaverði er veitt sérstök aðstaða til að sjá um slíkt. Þjóðminjavörður þarf ekki annað en að fá samþykki ríkisstj. til að setja slík mannvirki algerlega undir vernd þjóðminjasafnsins. Því miður voru þessi l. ekki komin, þegar þær aðgerðir voru gerðar, sem hér er rætt um. Þess vegna var ekki hægt að koma í veg fyrir þau skemmdarverk, sem hér hafa verið unnin. Ég vona, að þessi löggjöf sé nægileg til að fyrirbyggja, að slíkt endurtaki sig.