10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (3934)

910. mál, Bessastaðastofa o.fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég missti af því, hvað upphæðin var há, sem lögð hefur verið í Bessastaði alls (PZ: Ætli hæstv. forsrh. viti það sjálfur? — Menntmrh. Það var ekki um það spurt.) Og ekki þá þótt ástæða til að fara lengra. (Forsrh: Ég get upplýst, að það eru um 4 millj. kr.) Það vakti fyrst og fremst athygli mína, að þessu hefur öllu verið varið utan heimilda frá Alþ. Það var athyglisverð yfirlýsing. Við eltum hér ólar við 5–6 þús. kr. til ýmissa framkvæmda, og svo er því lýst yfir, að 4 milljónum hafi verið varið úr ríkissjóði til framkvæmda á þessum eina stað, án þess að leitað væri til Alþ. Þetta eru upplýsingar, sem eru athyglisverðar, og það þarf að athuga vel það pólitíska ástand, sem þær gefa mynd af.

Ein upphæð vakti athygli mína: 368000 kr. til hænsnahúss eða var ekki svo? (PZ: 368134 kr.) Jafnframt er yfirlýst, að á búinu séu 400 hænsni. (Atvmrh.: 500.) Mér skilst, að það verði þá um 1000 kr. á pútuna. Þetta er líka athyglisvert. Já, það má hlæja að þessu einu sinni og kannske tvisvar, en ekki oftar.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en það er athyglisvert, að stj. í þingræðislandi skuli taka sér þetta vald.