17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í D-deild Alþingistíðinda. (3938)

181. mál, njósnir Þjóðverja á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina þessari fsp. til hæstv. forsrh., sérstaklega með tilliti til þess, að hann var utanrrh., er það gerðist, sem hér er spurt um, og ætti því samkvæmt hlutarins eðli að hafa aðstöðu til að vita það, sem ég spyr um. Ég spyr um þetta af því, að mál þetta er nú nokkuð rætt hér á landi í sambandi við það, að nýlega kom út bók um sögu hernámsins. Í þessari bók eru ýmsar merkilegar Skýrslur m. a., og virðast þær bera með sér, að höfundurinn hafi haft aðgang að góðum heimildum, sem fáum einum hefur gefizt kostur á að rannsaka, og öll ber bókin það með sér, að höfundur hefur haft aðgang að valdamönnum við samningu hennar. og er því ástæða til að kryfja efni hennar til mergjar. Þar er sagt frá bréfaskriftum þeim, sem fyrirspurnin fjallar um, og það, sem vekur athygli utanrmn., er það, að veturinn 1939 sendir þáverandi sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn þrjú bréf til ríkisstj. sinnar um það, að njósnarkerfi Þjóðverja í Danmörku sé látið teygja sig til Íslands og sé mjög fjölþætt, og að danska lögreglan vari Íslendinga við þessu. Sendiherra er þetta svo mikið áhuga- og alvörumál, að hann sendir ríkisstj. þrjú bréf um sendiráðið í sama mánuðinum, 2., 10. og 28. marz 1939. Ég var þá formaður utanrmn. og álít, að það hefði verið eðlilegt og sjálfsagt að sýna n. þessi bréf, en það var aldrei gert. Um sama leyti fjallaði n. þó um óskir Þjóðverja um flugvöll hér á Íslandi. Það mál var aðallega tekið fyrir í þessari n., og voru allir sammála um að neita þeim tilmælum, þótt seinna hafi komið fram, að þetta hafi sérstaklega verið baráttumál eins manns í þáv. ríkisstj. Sannleikurinn var sá, að hann gat ekki staðizt þunga þjóðarinnar í þessu efni, hún knúði á, og þeir, sem töluðu við Þjóðverja og færðu þeim svörin, gerðu ekkert annað en tala máli þjóðarinnar allrar.

En utanrmn. fékk sem sagt aldrei að sjá þessi bréf, sem um ræðir, né neitt um málið að vita, og mér hefur skilizt af því, sem hv. þm. Ísaf. og fleiri sögðu hér í fyrra, að sjálfur þáv. utanrrh. hafi ekkert fengið um þetta að vita. Ef það er rétt, þá er sjálfsagt að kryfja þetta mál til mergjar, ekki svo mjög með tilliti til þess, sem liðið er, heldur með tilliti til framtíðarinnar og þess, sem hún ber í skauti sér, því að ekki lítur svo friðvænlega út í heiminum, að betra er að hafa öll utanríkismál í lagi og læra í því efni af mistökum fortíðarinnar.