17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í D-deild Alþingistíðinda. (3942)

181. mál, njósnir Þjóðverja á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Það fór eins og ég bjóst við, að hæstv. forsrh. hefur ekki fengið þá vitneskju í þessu máli, sem eðlilegt var, að hann fengi á sinni tíð sem utanrrh. A. m. k. hefði hann þó alltaf átt að fá bréfið frá 28. marz til meðferðar, er hann var orðinn ráðh. Og ég álít, að þjóðin eigi að vita þetta vel. Þjóðin á ekki að láta það viðgangast, að of fljótt fenni yfir spor pólitískra óhappamanna, heldur eiga þeir að þola sinn dóm.

Það er mjög eftirtektarvert, sem komið hefur fram hjá hv. 4. þm. Reykv. og nú hjá hv. þm. Str., að leyfa sér að segja það hér á Alþ. um njósnir útlendinga, að hér sé svo lítilfjörlegt mál, að ekki megi tala um það. Ég skal með mikilli ánægju halda áfram umr. um þetta mál utan þings, ef ekki hér á hæstv. Alþ., til þess að vita, hvort þjóðin álítur rétt að hafa það að engu, þegar sendiherra, sem í þessu tilfelli er Sveinn Björnsson, skrifar þrjú bréf sama manninum og varar við njósnum Þjóðverja á Íslandi. Yfir slíka menn, sem vilja leyna þjóðina þessu og ekki ræða það á Alþ., á að ganga réttlátur dómur almenningsálitsins og almenn fyrirlitning á þeim, sem vilja leyna slíku, hvað sem þeir heita. Ég býst við, að hæstv. Alþ. hafi veitt því eftirtekt, að hv. þm. Str., sem þá var forsrh. og tók við þessu bréfi, áleit ekki ástæðu til þess að segja, hvers vegna hann talaði ekki við utanrmn. eða Alþ., þegar hann fékk þessi bréf, og enn fremur, hvers vegna hann sendi ungan mann, sem átti að verða lögreglustjóri hér í Rvík. til Þýzkalands eftir þetta. Hvers vegna sendi fyrrv. forsrh. þennan unga mann beint í fangið á Himmler og Gestapo til þess að fræðast þar? Það liggja fyrir í stjórnarráðinu skýrslur um það, að þessi ungi maður hafi þar verið, og í þeirri skýrslu minnist hann á þá blóðhunda, sem lögreglan hafði þar í sinni þjónustu. Hvers vegna sendir ráðh. þennan unga mann til Þýzkalands 1939, þegar menn vissu, að Þjóðverjar voru að búa sig undir stríð og þegar búið var af sendiherra okkar í Danmörku að aðvara okkur? Mér þykir mjög fróðlegt að heyra, hvaða skýrslu hv. þm. Str. gefur um þetta efni.