17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (3948)

911. mál, rekstur Reykjavíkurflugvallar

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég held, að menn ættu ekki að vera óánægðir yfir fyrirspurnatímanum á Alþ. Þeir geta verið ánægðir með hann, því að hver fyrirspurn, sem borin hefur verið fram, hefur upplýst fyrir almenningi þá hluti sem hann gjarnan vildi fá að vita um. Það kom t. d. Skagfirðingum dálítið óvart, þegar þeir vissu, að stolið hafði verið beinum Jóns Arasonar og þau flutt hingað, sem mér er ekki hægt um að kenna. En ég hef orðið til þess að ljóstra málinu upp, og hvort sem hv. 1. þm. N-M. hefur eitthvað sagt um það, sem hafi átt að gerast fyrir 20 árum, þá skal ég ekkert segja um það, ég veit ekkert um það, en ég trúi svo að segja engu, sem sá maður segir.

Þá vil ég láta í ljósi gleði mína yfir því, að bréfið um njósnirnar verður birt, en þá vil ég skora á hæstv. forsrh. að birta líka bréf varðandi sendiför lögreglustjórans til Berlínar og skýrslu hans, svo og það, sem hann segir um blóðhundana o. fl.

Þá verð ég að hryggja hæstv. menntmrh. með því, að fólkið í landinu er alls ekki eins óánægt með fyrirspurnirnar og hann heldur. Það verður fegið, þegar eitthvað kemur betra en það, sem hann getur lagt hér fram. Þess vegna reyni ég upp á gamlan kunningsskap að bæta úr hans andlegu fátækt.

Ég hef borið fram fyrirspurn í vetur, sem er nokkuð svipaðs eðlis og það, sem hér er um að ræða. En hér er um svo stórt mál að ræða, nokkrar millj. króna, sem eytt hefur verið vegna gistihússins á flugvellinum, og þegar þar við bætist, að útlit er fyrir, að stolið hafi verið mjög miklu af eignum hússins í sumar, einmitt um leið og þessi hæstv. ráðh. tók við, — en mér dettur ekki í hug að halda, að hann hafi stolið því, — þá er ég ekki hissa á því, þó að almenningur í landinu láti sig það varða, sem líka sjálfsagt er.

Það var ákaflega óviturlegt hjá hæstv. ráðh., þegar hann tók við þessari eign hjá kommúnistum, þar sem hann mátti vita, hvernig fólk hafði verið ráðið þar, að hafa þar ekki meira eftirlit í sumar. Það er ákaflega erfitt að átta sig á því nú, hvað þetta fólk hefur flutt með sér, af því að það var svo gersamlega eftirlitslaust. Stjórnarfarið þar á flugvellinum sést bezt á því, að það skyldi kosta 200 þús. kr. að mála þetta litla braggahús. En hæstv. ráðh. gerði rétt í því að hætta þjóðnýtingu á gistihúsinu, a. m. k. nú um stund, og mun allt vera í betra horfi nú. En samt sem áður er það fullkomlega eðlilegt, að þjóðin vilji fá að vita, hvernig þetta stendur nú.

Hæstv. ráðh. verður að gera sér ljóst, að fullkomin óánægja ríkir um það, hvernig flugmálin eru rekin, og þá sérstaklega út af þessum velli, að hann skuli vera rekinn með svo gífurlegum tekjuhalla. Og það sýnist eins, þó að stj. reyni að ráða bót á þessum málum, að þá haldi það ófremdarástand áfram.