17.02.1948
Neðri deild: 58. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

149. mál, fésektir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Eins og mönnum er kunnugt, hefur verðlag mjög breytzt frá því, sem var fyrir ófriðinn, en í öllum þorra l. er upphæð sekta miðuð við fyrri tíma verðlag. Það eru ekki nema sum l., þar sem sektarákvæðum hefur verið breytt til samræmis við það verðlag, sem orðið hefur. Í fiskveiðilöggjöfina hafa verið sett hækkuð sektarákvæði, og enn róttækari sektarákvæði hafa verið sett í frv., sem borið hefur verið fram um að ákveða sektir við brotum á gildandi verðlagslöggjöf. Það er svo um mörg alvarleg afbrot eins og smygl og brot á tollalöggjöfinni, að þar eru hlægilega lág sektarákvæði miðað við núverandi verðlag. Þannig mætti lengi telja. Það væri hægt að telja upp öll þessi fyrirmæli og hækka sektirnar í hverjum einstökum þeirra, en það hefur ekki þótt ástæða til þess, heldur þótti skynsamlegra að setja almennt lagaboð um heimild fyrir dómstólana til að ákveða lág- og hámarkssektir eftir þeirri vísitölu, sem kaupgjald er reiknað eftir. Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, fer í þá átt að lögfesta þetta.

Frv. fékk góðan framgang í Ed., og vona ég, að eins verði hér. Vil ég mælast til þess, að d. afgr. það nú til 2. umr. og allshn.