13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

23. mál, bændaskólar

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Þær breyt., sem felast í þessu frv. frá núgildandi l., byggjast á athugunum, sem fram fóru að tilhlutan landbrn. s.l. sumar á eldri l., og framkvæmdu þessa athugun skólastjórar Hvanneyrarskólans og Hólaskóla ásamt búnaðarmálastjóra. Höfuðbreyt. er fyrirkomulagsatriði um verklegt nám í bændaskólunum, en það hefur sýnt sig, að mjög erfitt hefur verið að fylgja þeirri námstilhögun, sem höfð hefur verið, og einnig, að oft hefur þurft að sækja um undanþágur. Nú er farið fram á, að breyt. verði gerðar samkvæmt þeirri reynslu, sem fengizt hefur. Einnig er farið fram á að greiða skólastjórunum nokkur bústjóralaun vegna þess, að aðrir kennarar hafa sumarfrí 2–3 mánuði ársins, og kemur það ranglátlega niður, að þeir verða ekki þessara hlunninda aðnjótandi, en verða að vinna að ýmsum störfum á sumrin fyrir ekki neitt. Þá er heimild til að stofna deild, þar sem búfræðingar geti fengið framhaldsmenntun. Það hefur löngum verið áhugamál þeirra, sem við búnaðarmál starfa, að geta komið upp slíkri framhaldsdeild, og hafa á búnaðarþingi hvað eftir annað veríð gerðar samþykktir í þessa átt, síðast nú í vetur. Þrátt fyrir mikla menntun búfræðinga erlendis, hefur veríð mikill hörgull á að fá leiðbeinandi menn úti um land, sem nauðsynlegir eru, og ekki sízt nú, eftir að jarðræktarákvæðin hafa verið samþykkt og miklar framkvæmdir hafa siglt í kjölfar þeirra. Á fleiri sviðum, t.d. við búfjárræktina, þarf að fá leiðbeinendur, og þótti rétt að koma upp stofnun, sem veitti mönnum þekkingu á þessum greinum, sem nægði til þess, að þeir gætu verið leiðbeinendur bænda. Það hefur verið ákveðið, að þessi framhaldsdeild byrjaði við bændaskólann á Hvanneyri nú í haust.

Annað er það ekki, sem ég þarf að taka fram viðvíkjandi þessum breyt., og legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til landbn.