13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

23. mál, bændaskólar

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. Árn. Ég held, að það gæti einhvers misskilnings hjá honum varðandi bendingar mínar í þessu máli, að þær miði að því að vinna gegn menntun bænda. Ég stakk upp á, að bændaskólarnir yrðu eins árs eða 9 mánaða skólar, og með litlum breytingum gætu þá helmingi fleiri nemendur sótt skólana að Hólum og Hvanneyri, eða um 100 á ári hverju.

Ég veit, að þegar hv. þm., sem er sjálfur gamall búfræðingur, athugar, að í bændaskólunum eru nú kenndar yfir 20 námsgreinar og margar þeirra stórar, þá sér hann, að það er ekki æskilegt fyrir bændaefni að dreifa kröftum sínum á allt það námsefni, og það er ekki von, að piltar geri því öllu góð skil. Hv. þm. verður að minnast þess, að á hans gamla skóla, Hvanneyri, er enn þá ekkert verkstæði t.d., ranghyggjan er svo stórkostleg. Hví má ekki fyrst laga þá skóla, sem fyrir eru, svo að þeir nýtist sem bezt, áður en farið er að ráðast í það vafasama fyrirtæki að stækka þá? Námsgreinafjöldinn er minnisvarði yfir allt „húmbúg“ í þessu sambandi. Hvaða meining er t.d. í því að kenna dönsku og almennan reikning í bændaskólunum? Ég er viss um, að ef hv. 1. þm. Árn. athugar málið, þá sér hann, að það er ekki heppilegt að blanda almennum kennslugreinum inn í sérfræðinámið, og í sambandi við það, sem hæstv. Iandbrh. viðurkenndi áðan, að bændaskólarnir hefðu jafnan verið illa sóttir, þá vil ég benda á, að við verðum að mæta þeirri staðreynd með því að gera skólana þannig úr garði, að bændur finni, að þeir eigi þangað eitthvert erindi og hafi það gagn af skólavistinni, sem til er ætlazt. Nýr skóli kemur af sjálfu sér, þegar hinir eru fullir, en meðan hins vegar er hægt að tvöfalda nemendatölu gömlu skólanna með skynsamlegu móti, bráðliggur ekki á nýjum skóla.

Ég dreg ekki í efa, að Ólafsdalsskólinn hafi verið einhver bezti búnaðarskóli hér á landi, en skólakerfi hans var mjög líkt og húsmæðraskólanna nú, mikið verklegt nám, enda blessaðist það vel. En að núverandi skólakerfi bændaskólnna gafst vel hjá Sigurði Sigurðssyni og Halldóri á Hvanneyri, stafaði bara af því, að þeir voru afburðamenn, en það er ekki öllum gefið, þessir menn voru yfirfullir af persónulegum krafti. Tökum t.d. húsdýrafræðina dönsku, sem hefur verið kennd, þar eru 296 blaðsíður um útlend húsdýr, en 4 blaðsíður um innlend húsdýr. Þegar Sigurður Sigurðsson kenndi eða talaði, þá hafði hann alltaf áheyrn, en þetta er ekki öllum gefið. Einstakir kennarar geta haft það mikinn persónuleika, að gallar ríkjandi skólafyrirkomulags komi ekki svo skýrt í ljós, meðan þeirra nýtur við, en þegar þeir falla frá, verður oft ekki lengur við unað.

Í þessu sambandi vil ég benda á, að hin almenna skólaskylda hefur nú nýlega verið framlengd og það ekki svo lítið. Unglingarnir eru í hörðum bóklegum böndum, taka mikil og mörg próf og njóta sívaxandi bókfræðslu, svo að allir sjá, hve fjarri lagi það er að ætla sérskólum bændanna að burðast með alla hina almennu bókfræði, sem er kennd í lögboðnum skólum. Einn útgangurinn út úr hinum almennu unglingaprófum og námi er stúdentspróf við 18 ára aldur í framtíðinni. Stúdentar munu e.t.v. skipta hundruðum á ári hverju, og þeir stúdentar, sem fara í búnaðarskólana, ættu ekki að þurfa að taka annað en verklega námið. Menn hljóta að sjá, að það væri að bera í bakkafullan lækinn að láta bændur framtíðarinnar eða bændaefni fást enn við mikil bókleg efni, eftir að þeir væru komnir í gegnum hina almennu skóla og í bændaskólana eða sérskóla.

Hitt er rétt, að það er nauðsynlegt að reisa Skálholtsstað við í nútíðarmynd, koma þar upp fyrirmyndarbúi, stækka túnið og reisa hús fyrir það fé, sem Alþ. hefur heimilað að verja til staðarins, og reyna að láta bráðna þar saman virðulegar minningar liðna tímans og virðulegt og myndarlegt nútímalíf. Nefnd sú, er ákveðið hefur að endurreisa Skálholtsstað og fara með hann út í bithagann, er starfi sínu ekki vaxin.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta. Ég mun síðar koma hér með brtt. sem mótmæli gegn þeirri stefnu í búnaðarmálum, sem kemur fram í þessu frv.