10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

23. mál, bændaskólar

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður um þetta mál, því að frv. fylgir nál. landbn. á þskj. 160, og hef ég litlu við það að bæta. Nefndin leggur til, að frv. verði samþykkt með lítils háttar breytingum. Ég skal taka það fram, að n. taldi rétt að leita álits skólastjóra beggja bændaskólanna, og fékk n. umsögn frá þeim báðum um mál þetta, og lét hún prenta þær sem fskj. nr. 1 og 2 með nál. Eins og þar kemur fram, þá mæla þeir báðir með þeim meginbreyt., sem n. vill gera láta, og kemur þar fyrst til greina breytingin um verknámið við skólana, en hún er þess efnis, að verknámið skuli ekki taka yfir sumarið milli námsvetranna. Það ákvæði hefur reynzt mjög erfitt í framkvæmd og undanþágur frá því oftast verið gefnar, svo að heita má, að þær undantekningar séu orðnar að algildri reglu, en það stafar af því, að óhægt hefur reynzt fyrir bændasyni að binda sig allt sumarið, eins erfitt og nú er að fá vinnukraft í sveitirnar. Þó að slakað sé til um þetta, þá er síður en svo langt gengið með þessu. Ef breytingin yrði gerð, þá er gert ráð fyrir, að verklega námið við bændaskólana standi yfir 780 klst., en það svarar til 17–13 vikna tíma. Hin meginbreytingin, sem felst í frv., er í 15. gr. og fjallar um heimild þá, sem landbrh. er veitt til þess að stofna sérstaka deild við einn Bændaskólanna eða annars staðar, ef hentara þykir, þar sem búfræðingar geti fengið framhaldsmenntun. Þetta hefur nú reyndar þegar komið til framkvæmda, þar sem slík deild tók til starfa á Hvanneyri á s.l. hausti, og er hér því eiginlega aðeins leitað eftir staðfestingu, hvað þessa framhaldsdeild snertir. N. lítur svo á, að hún muni koma að miklu gagni, þar sem bændaefni, sem læra vilja meira en kennt er á bændaskólunum, þurfa ekki lengur að sækja þá menntun til útlanda, eins og verið hefur.

Ég vil nú lítils háttar drepa á þær breytingar, sem n. vill gera við frv., en þær eru í fyrsta lagi við 7. gr. frv. Þar viljum við láta koma í staðinn fyrir orðið: dönsku „eitthvert norðurlandamálið eða ensku“. Okkur fannst óviðkunnanlegt að binda málanámið aðeins við dönskuna og breyttum því þess vegna. B-liður, sem er breyting við sömu gr., er á þessa leið: „Aftan við 4. málsgr. bætist: Nemendur, sem stunda verknám utan skólabúanna, fá greiddan ferðakostnað til og frá kennslustað.“

Í 15. gr. frv. er heimild fyrir landbrh. að stofna sérstaka framhaldsdeild við bændaskólana, og leggur n. til, að kostnaður við stofnun hennar verði greiddur eftir því, sem fé er veitt til á fjárlögum. Aðrar breytingar en þær, sem nú hafa verið taldar, hefur n. ekki gert á frv. Í 6. gr. er prentvilla, sem að sjálfsögðu verður leiðrétt við endurprentun, en þar stendur „skólann“ í stað „skólana“.

Ég vil geta þess, að ég var fjarstaddur, er 1. umr. um mál þetta fór fram, en á þessu stigi málsins sé ég þó ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það og vil leggja til, að frv. með áðurnefndum breytingum verði samþykkt.