05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

23. mál, bændaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég kannast fúslega við, að mér er annt um bændur og bændaskóla og vil því ekki búa skólunum löggjöf, sem gerir þá a.m.k. ekki eins og maður vill láta þá vera. Eftir því, sem mér hefur skilizt af viðtali við skólastjóra annars bændaskólans, landbrh. og mþn. í skólamálum, er breyt. einkum rökstudd með tvennu. Í fyrsta lagi hefur þróunin orðið sú, að ekki hefur reynzt unnt að framfylgja ákvæðum gömlu l. um verklegt nám, þar eð ekki hefur reynzt unnt að halda piltunum að náminu. Hin rökin eru þau, að nú er verið að koma á framhaldsnámi fyrir búfræðinga, sem síðan gætu farið út á land og orðið ráðunautar þar, en á mönnum til starfa héraðsráðunauta er nú tilfinnanleg vöntun hjá Búnaðarsamböndunum.

Nú er að verða bylting í atvinnulífi þjóðarinnar. Ný atvinnutæki hafa verið tekin í notkun við sjávarsíðuna, sem munu krefjast um 6000 manna. Þessi „nýsköpunartæki“ kalla á menn til vinnu. Af þessum ástæðum hafa margar jarðir farið í eyði, og þeir, sem eftir búa, reyna að spara fólkshald, meðan vinnuliðið streymir í vinnu hins opinbera og að sjávarsiðunni. Og búskaparaðferðir eru smám saman að breytast, tæknin eykst, og vélanot fara í vöxt. En jafnframt færist það í þá áttina, að búskapurinn verður sérhæfari. Sumir hændur stunda sauðfjárrækt, aðrir nautgriparækt, sumir rækta kartöflur, gulrætur o.s.frv. En eftir því, sem búskapurinn verður einhæfari, krefst hann aukins verklegs náms. Bóndi, sem stundar eingöngu kartöflurækt, þarf meira verklegt nám en hinn, sem ræktar aðeins handa sjálfum sér. Og bóndi, sem þarf mikið að fara með vélar, þarf meira verklegt nám en í gamla daga þegar eingöngu voru notuð handverkfæri. Ég tel það því spor aftur á bak að draga úr verklegu námi, og væri þar frekar þörf aukningar. Ég álit, að setja verði ramma um verklega námið og gera það prófskylt, einnig verður að afmarka bóknáminu ákveðið svið. Nú er verið að koma upp sérstöku skólakerfi, þannig að einn skóli taki við af öðrum og ekki rekist á kennslan hjá þeim innbyrðis. En bændaskólarnir eru ekki enn komnir inn á það kerfi. Mþn. sú, er um þessi mál fjallar, á eftir að afgreiða sérskólana og ætla þeim sérstakt rúm innan kerfisins og tengja þá öðrum skólum, þannig að nemendurnir koma allir með álíka mikla bókþekkingu, þegar þeir koma í skólana. Reynslan hefur verið sú, að nemendur hafa komið litt undirbúnir í skólana, og hefur þetta valdið miklum töfum. En nú er ætlunin sú, að aðrir skólar séu búnir að undirbúa piltana, þegar þeir koma í bændaskólana, og er því auðveldara að einhæfa bændanámið við það, sem fyrst og fremst vantar, og að auka verklega námið og gera það prófskylt. og í öðru lagi, að lögin sem heild séu látin falla inn í skólakerfi landsins og að bændaskólarnir séu látnir taka við af miðskólunum og kennslan miðuð við það. Ég tel það misráðið að koma á stofn búnaðarháskóla við annan hvorn búnaðarskólann til að mennta menn til kennslu og annarra slíkra starfa. Þörfin er ekki meiri en svo, að 20 eða í mesta lagi 30 menn mundu nægja allt í allt. Og þegar þeir eru komnir til starfs, þarf ekki nema sem svarar 1–2 nýjum mönnum árlega. Ég tel því misráðið að koma upp sérstökum skóla til að mennta þessa menn, þar eð viðkoman er svo lítil og kostnaður verður óhjákvæmilega mikill, og því heppilegra að senda mennina annað. Það eru engin rök með þessu, þótt á stofn hafi verið sett slík deild á Hvanneyri í trássi við lög og án heimildar í fjárlögum. Ég tel ástæðulaust að fara að lögfesta þessa deild, þótt búið sé að setja hana á stofn, það er eins og lögfesta ætti þjófnað, ef einhver stæli. Rétt er að athuga, hvort þetta gæti orðið til frambúðar. Ég viðurkenni þörf þá, sem nú er í augnablikinu fyrir þá menn, sem hugsað er að skrifa út úr þessari deild, en tel, að það mundi verða ódýrara á annan hátt í framtíðinni. Og eigi þeir að menntast hér heima, þá má koma kennslunni miklu betur fyrir en gert er með þessum lögum. Það má láta þá starfa með ráðunautum Búnaðarfélags Íslands, og fá þeir þar verklega æfingu og um leið fjölbreyttara yfirlit heldur en þeir hefðu fengið, hversu mikið sem þeir hefðu lesið. Ég legg því til, að verklega námið verði aukið, en nemendurnir þurfi ekki að lesa aftur sömu fögin og í bændaskóla, og tel litið gagn að slíku. Þeir þurfa viðbótarnám, en ekki upplestur. Ég legg því til, að frv. sé ekki samþykkt nú. Ég vil leggja fram rökstudda dagskrá um að vísa frv. frá og semja ný bændaskólalög, þar sem verklega náminu sé skapað meira rúm og bóklega námið sniðið í samræmi við skólakerfið. Ég vil því vísa frv. til ríkisstj., eins og rökstudda dagskráin segir, í trausti þess, að það verði endurbætt. En verði hún felld, mun ég gera mjög miklar brtt. milli 2. og 3. umr. um það, að nemendur verði að koma úr miðskólunum eða taka sérstakt inntökupróf, gera verklega námið mun þyngra og fella niður 15. gr., þar eð hún á ekki heima í frv. En hvort ég sé mér fært að gera þetta, fer eftir því, hve langt verður milli umræðna. Við sjáum, hvað setur