05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

23. mál, bændaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil beina athygli hv. n. að 3. gr., sem hún ber fram brtt. við, en í grein þessari felst, að heimilað er að reisa nýbýli og bústaði fyrir kennara og starfsfólk hvers skóla á kostnað ríkissjóðs, eftir því sem landbrh. ákveður í samráði við skólastjóra og fé er veitt til í fjárlögum. Mér skilst, að ef brtt. n. við þessa gr. verður felld, að þá væru opnir möguleikar á því að reisa fjögur nýbýli á hverri skólajörð á kostnað ríkisins, fyrir skólastjóra og þrjá fasta kennara, og þar að auki eins mörg býli og starfsfólkið er margt, fyrir ráðsmann, ráðskonu o.s.frv. En þó að maður haldi sér aðeins við hina föstu kennara og skólastjórann, eins og brtt. fer fram á, þá skilst mér, að fjögur nýbýli yrðu reist á hverjum stað. Í fyrsta lagi veit ég ekki, hvort skólajarðirnar þola öll þessi býli, — það getur verið, að Hvanneyri, Hólar og Skálholt þoli það, en hitt er annað og verra, og við því vil ég vara, að ríkið gangi inn á þessa braut, því að það verður ekki aðeins að reisa íbúðarhúsin, heldur og öll peningshús og kosta ræktun, og hefur svo enga tryggingu fyrir því, hvað um þessi nýbýli verður síðar. Í öðrum l. eru ákvæði um nýbýli og þátt ríkisins í stofnun þeirra, svo að ég sé ekki, að þetta álsvæði hafi neitt að gera inn í þessi l., það eykur aðeins á kostnað ríkissjóðs og getur valdið árekstrum í framkvæmd. Ég mun því bera fram brtt. við þessa gr. um, að hún falli niður, og kemur þá sú brtt. fyrr til atkvæða en brtt. við sömu gr. á þskj. 389. Hins vegar ætla ég að verða við tilmælum frsm. að bera ekki fram þessa brtt. fyrr en við 3. umr., en þá mun ég bera hana fram, ef ekki hefur náðst samkomulag um annað.

Í öðru lagi vil ég benda hv. landbn. á, að í 7. gr. stendur, að eitt af því, sem kenna á í búnaðarskólunum, er „helztu undirstöðuatriði húsbygginga í sveitum“, og hvort ekki væri hægt að auka þá starfsemi, því að hér er tæpt á merkilegu atriði. Einu sinni átti að kenna ,þetta í sérstakri deild við bændaskólana, og er nú meiri þörf á þessari kennslu en nokkru sinni áður, og má í því sambandi minna á frv. til laga um iðnskóla í sveit, sem hefur nú verið flutt hér í þriðja sinn. Er ekki hægt að samræma þessi mál nokkuð í sambandi við bændaskólana? Það efast enginn um, að það þarf að koma á þeirri kennslu, sem hér um ræðir og iðnskólafrv. gerir ráð fyrir. En það frv. á sjálfsagt nokkuð langt í land með að verða að l. í núverandi mynd sinni, og ég vildi aðeins vekja athygli á því, hvort ekki væri hægt að byrja með nokkurs konar iðnaðardeild við bændaskóla.