15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

23. mál, bændaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Við aðra umr. flutti ég rökstudda dagskrá, sem var felld. Sú dagskrá var um það að vísa málinu til stj. til frekari aðgerða, og var bent á, að hún legði það aftur fyrir næsta þing betur undirbúið, Mér hefur ekki unnizt tími til að gera þær breyt., sem ég vildi gjarnan gera, en vil hins vegar láta það koma fram hér, hvernig ég tel, að þessi l. eigi að byggja upp. Ég tel það fyrst og fremst rétt hjá hv. þm. Barð., að það sé engin þörf á 3. gr. En það er aðalatriðið fyrir mér, að ég tel skólana þurfa að vera öðruvísi í sniðinu heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir, enda er það viðurkennt af hæstv. atvmrh., að þessi l. séu hugsuð sem brbl. í 1 eða 2 ár og þá þurfi að breyta þeim. Ég álít, að það þurfi að byggja þannig upp bændaskólana, að þeir falli inn í heildarskólakerfi landsins. Þess vegna þarf það að vera vitað, hvaða undirbúningsmenntun bændaskólanemendur hafa, þegar þeir koma í skólann, og miða bóklega námið við það, en ekki, eins og hér er gert, að þeir komi illa undirbúnir og taki svo aukatíma í ýmsum fögum. Fyrsti veturinn, sem nemendur eru í skólanum, á að vera nám út af fyrir sig, þá eiga þeir að læra í viðbót við það almenna, sem þeir kunna, þegar þeir koma inn í skólann, þeir eiga að læra byggingu, hirðingu og verkun á verkfærum, og að þessum vetri loknum eiga þeir að taka próf í þessum fögum, en hluta af því prófi, allt sem snertir verkfæri, á ekki að ljúka fyrr en að haustinu. Þá eiga þeir að vera búnir að fá verklegt nám að sumrinu og kunna að fara með verkfæri, og prófskírteini frá þessu tímabili á að veita aðgang að síðari vetrinum. Hvernig þeir afla sér þeirrar þekkingar, hvort þeir hafa gert það á skólum eða með því að vinna með mönnum að jarðabótavinnslu, er í rauninni aukaatriði. En það, sem krefjast verður, er, að þeir fái þá verklegu þekkingu, sem geri þá færa um að leysa af hendi störf, sem þeir v:nna sem starfsmenn bænda, áður en þeir festa ráð sitt. Svo kemur þriðja námstímabilið. Það á að vera eingöngu bóklegt. Í þessu formi á frv. að sníðast. Það á að búa til skóla, sem svona eru upp byggðir og falla inn í skólakerfi landsins. Sú framhaldsfræðsla, sem hér er ætlazt til, að veitt verði, á ekki að vera við bændaskólana. Þó að mikil eftirspurn sé nú eftir héraðsráðunautum, þá er það ekki svo mikið, að það þurfi að vera skólar hér á landi til þess. En meðan það vantar í kringum 20 héraðsráðunauta, þá getur vel verið, að það sé rétt að flýta fyrir þessari menntun með því að setja upp innlenda stofnun til að mennta þessa menn, en það á ekki að vera við bændaskólana, þeir eiga fyrst og fremst að láta sína nemendur vera í verklegu námi og vera með ráðunautunum, sem fyrir eru, eftir. því, hvort þessir menn ætla sér að leggja stund á jarðrækt, verkfæri eða búfé. Þessir menn eiga ekki að fara á skóla til þess að lesa upp aftur sömu fögin eins og þeir læra nú á Hvanneyri. Af þessum ástæðum er ég á móti frv., og úr því að því var ekki vísað til ríkisstj. með rökstuddri dagskrá, þá legg ég til, að því verði vísað til ríkisstj. og hún ráði því, hvort hún svæfir það í mörg ár eða fá.