15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

23. mál, bændaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mikið, en vil aðeins benda hv. þm. Dal. á, að með 3. gr. er verið að fara inn á mjög varhugaverða braut, sem erfitt kann að verða að stöðva sig á. Það er og því síður ástæða til að setja þetta vafasama ákvæði inn í frv., þar sem gert er ráð fyrir, að hér verði aðeins um bráðabirgðalög að ræða og að málið verði mjög bráðlega endurskoðað í heild. Það, að hér er aðeins farið fram á nýbýll fyrir tvo kennara, er að þakka varfærni hv. þm. Dal., en það geta komið aðrir, sem vilja nýbýli fyrir 3, 4 eða 5 kennara, og er raunar vafasamt, hvort skólajarðirnar hafa land til nýbýlastofnana handa kennurunum, hvað þá þeim og öllu starfsfólkinu, eins og var upphaflega í frv. Ég skil ekki, hvers vegna svo varfærinn maður sem hv. þm. Dal. vill fara inn á svo hæpna braut, og ég held fast við mína brtt. og skora á þm. að samþykkja hana og óska nafnakalls um hana.