17.11.1947
Efri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

21. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. —Þetta frv. er komið hér á ný, eftir að nokkrar breyt. hafa verið gerðar á því í Nd., sem sjá má á 3. gr. frv., sem er breyt. við 34. gr. l. Í henni felst, að ráðið geti verðlagt egg og grænmeti, ef eggjasamlag óskar þess og stjórn sölufélags garðyrkjumanna óskar þess. Þetta var ekki í l. í upphafi. Hvað grænmeti snertir, þá er það þannig vara, að það hlýtur að þurfa að breyta verði á því mjög oft, eins og aðstæður eru nú. Grænmeti eru vörur, sem þola mjög skamma geymslu og leiðir það af sér, ef mikið berst á markaðinn, að lækka þarf verðið til þess að reyna að tryggja sem fljótasta sölu þess. Hefur því af eðlilegum ástæðum verið haldið fram, að framleiðsluráðið hefði ekki tök á því að ákveða verð á grænmeti, að hækka og lækka verð þess með svo skömmu millibili, sem stundum mundi vera þörf. Hefur því þess vegna verið haldið fyrir utan. Hins vegar ef framleiðendur eða sölusamtök þeirra óska þess, að framleiðsluráðið ákveði verð á þessum vörum, þá er það heimilt eftir þessa breytingu. Sama er með eggin, að þau eru vara, sem mjög mismikið hefur verið af á markaðinum og því misjöfn eftirspurn og misjafnt verð á; þau ýmist lækka eða hækka. Í þessu sambandi er rétt að benda á, að hyggilegt mun vera að láta vöruverð ekki breytast mikið, þótt nokkur mismunur verði á eftirspurninni. Vandalaust er að hækka vöruverð, en venjan hefur verið sú að hreyfa vöruna ekki, þótt eftirspurn hafi aukizt um stund. Gagnstætt þessu er þó um margar aðrar vörur en landbúnaðarvörur, og getur oft verið um mjög skiptar skoðanir að ræða. Margur telur réttara að selja t.d. mjólk hærra verði að haustinu en setja hana svo niður síðari hluta vetrar, þegar mjólkurmagnið vex. Ég hef alltaf fylgt föstu verði í því efni, þótt það sé fráhverft sjónarmiði framleiðenda, sem vilja fá sem mest upp úr sinni vöru. Og það er vitað mál, að það mætti selja mjólk miklu hærra verði hér í Reykjavík nú en gert er. Það er því rétt að gera sér það ljóst, að ef landbúnaðarvörurnar væru frjálsar, þá yrði verð þeirra meira hreyfanlegt. Aftur á móti hef ég oft greitt atkv. á móti því, að verðskráning landbúnaðarvaranna færi eftir framboðinu, og mitt atkv. hefur stundum ráðið hér um. Þótt ég hafi látið þessi orð falla, þá er ég ekki á móti frv. og legg til, að það verði samþ., en hv. landbn. hefur ekki tekið málið fyrir, síðan það var afgreitt frá Nd., og veit ég því ekki um skoðun hv. nm.