16.02.1948
Neðri deild: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. spurði um það, hví ekki mætti heldur rýmka vernd hæstaréttardómara upp í sjötíu ára aldur í stað þess að færa vernd héraðsdómara niður í 65 ára aldurstakmark. Ástæðan er sú, sem ég gat um áðan, að viðbúið er, þegar menn eru orðnir 65 ára, að ellimörkin séu farin að setja fingraför sín á störf þeirra, og að þeir átti sig ekki á því sjálfir, að þeir eru raunverulega orðnir óhæfir til starfa, þó að viljinn sé góður og embættisfærslan kunni að ýmsu leyti að vera í lagi. Það er því sama ástæða og áður til að binda sig við 65 ára aldur í þessu efni, við það hefur verið miðað síðan stjskr. var sett 1874, réttarverndaraldri hefur aldrei verið breytt í öll þessi ár, og hefði þó legið nær en nú að gera það, er embættismenn sátu oft í embættum til 80 ára aldurs. En af skiljanlegum ástæðum treystu menn sér ekki til að veita dómurum réttarverndina svo lengi, það var og er óhjákvæmilegt, að framkvæmdavaldið hafi það í hendi sér að láta þá fara frá þegar á þann aldur er komið, ef störf þeirra fara að bera augljósum ellimörkum vitni. Ég vil ítreka það, sem ég hef áður sagt, að það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv., að í þessu frv. felist, að allir héraðsdómarar verði látnir fara frá 65 ára. Þeir geta þó látið af störfum eftir 65 ára aldur með fullum eftirlaunum, eins og aðrir embættismenn geta samkvæmt lögum eða breytingunni á aldurshámarkinu, er gerð var í fyrra fyrir atbeina hv. 5. þm. Reykv., svo að það er möguleiki til þess, að þeir fari frá 65 ára. Og ef þetta er kölluð glufa í löggjöfinni, er opni víðari leið, þá má alveg með sama rétti tala um glufu í stjskr. sjálfri, þar sem forseti getur látið alla embættismenn aðra en dómara víkja úr embættum á hvaða aldri sem er. Einn viðurlögin, sem þá gilda, eru þau, að ef það sannast, að manni hafi verið vikið úr embætti að ósekju, þá getur hann fengið sér tildæmdar skaðabætur. Ég geri ráð fyrir, að ef héraðsdómara væri víkið úr embætti 65 ára, eftir að frv. þetta væri orðið að lögum, þá væri það lögformlega gilt. Ef dómarinn teldi sér hins vegar hafa verið vikið ranglega úr embætti, þá gæti hann höfðað mál til að fá sér dæmdar skaðabætur, en þó að hann fengi skaðabætur greiddar, þá fengi hann sig ekki dæmdan aftur inn í embættið. Ég gæti trúað, að skaðabæturnar yrðu miðaðar við það tjón, sem hann bíður við það að vera sviptur embættinu frá 65 til 70 ára, eða um fimm ára skeið, þ.e. ef talið væri, að dómaranum hafi verið vikið úr embættinu algerlega að ósekju. Hins vegar gæti svo farið, að ráðh. gæti fært þau rök fyrir máli sínu eða brottvikningunni, að dómarinn fengi sér ekki tildæmdar neinar skaðabætur. Alveg hið sama gilti, ef öðrum embættismönnum væri vikið úr embættum á sama tíma, eða eftir 65 ára aldur, þar kæmu l. um aldurshámark embættismanna jafnt til greina að mínu viti. Eini munurinn á því, sem er, og því, sem yrði, ef frv. þetta yrði að lögum, er sá gagnvart héraðsdómurum, að frávikningin sjálf væri gild án undangengins dóms, ef þeim væri víkið frá embætti frá 65 til 70 ára, en þeir hefðu hins vegar sama rétt til skaðabóta og aðrir embættismenn, réttarstaða þeirra yrði með öðrum orðum hin sama og hjá öðrum embættismönnum. Hér er aðeins verið að afnema sérréttindi héraðsdómara, sem þeir hafa fram yfir alla aðra menn í þjóðfélaginu, en lögin um aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna halda að öllu leyti gildi sinu eins og frá þeim var gengið í fyrra m.a. fyrir atbeina hv. 5. þm. Reykv.