16.02.1948
Neðri deild: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og hv. 5. þm. Reykv., að það er einkennilegt, ef sömu menn sem samþykktu í fyrra breytinguna á aldurshámarkinu, samþykkja nú þetta frv. Að vísu heitir það frv. til l. um breyting á lögum um meðferð einkamála í héraði, og hin nýja málsgr. á að koma aftan við 35. gr. þeirra laga. Sú grein þeirra laga er um það, að dómsmrh. víki dómara úr embætti um stundarsakir, en höfði síðan mál á hendur honum til embættismissis, svo fljótt sem verða má. ef dómsmrh. telur dómarann hafa misst hin alinennu dómaraskilyrði eða hafa gert sig sekan um misferli í dómarastarfi, enda hafi áminning æðra dóms eða ráðh. ekki komið að haldi eða dómarinn hafi að álíti ráðh. með öðrum hætti rýrt svo álit sitt siðferðislega, að hann megi ekki lengur gegna dómaraembætti.

Það er nú í fyrsta lagi óviðfelldið að hnýta hinni nýju frvgr. hér aftan við fyrrnefnda 35. gr., sem eingöngu fjallar um misferli dómara að áliti ráðherra, og í öðru lagi fæ ég ekki séð, að það standist, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að frv. þetta haggaði í engu ákvæðum þeirrar breyt., sem gerð var í fyrra á lögum um aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna. Ég skil það ekki. Samkvæmt því, sem samþykkt var í fyrra, er aldurshámarkið 70 ár. Þó voru ákvæði sett inn í lögin um það, að ef þessir embættis- og starfsmenn hins opinbera óskuðu eftir að fá lausn frá embætti fyrr, þá væri heimilt að veita þeim lausn, þegar þeir væru orðnir fullra 65 ára eða hvenær sem væri eftir þann tíma, með fullum eftirlaunarétti. En ef þessi breyt. hér yrði samþ., fæ ég ekki betur séð en ráðh. gæti vikið dómurum frá störfum eftir að þeir væru orðnir 65 ára gamlir, hvort sem þeir óskuðu eftir því sjálfir eða ekki. Hér er því nm að ræða breytingu frá því, sem samþykkt var í fyrra.