16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd. og var vísað til allshn., sem hefur haft það til athugunar. Breyt. þær, sem gert er ráð fyrir í frv., eru ekki mikils varðandi og eru nánast til samræmis við þær reglur, sem gilda um þessi réttindi. Það þykir óviðeigandi, að undirréttardómarar séu hafðir rétthærri en hæstaréttardómarar. N. hefur lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, þó þannig, að tveir nm. (PZ og BrB) hafa áskilið sér rétt til að hafa óbundnar hendur um afstöðu til málsins, án þess þó að vilja kljúfa n.

Eins og l. eru nú, þá er skilyrði fyrir því, að setja megi dómara frá starfi fyrir fullt og allt, að ráðh. réttlæti þá ráðstöfun með máli. Þetta gilti aðeins um dómara, sem voru undir 65 ára aldri, vegna laga frá 1935, þar til í fyrra að l. var breytt, en eftir það tekur þessi regla einnig til héraðsdómara frá 65 til 70 ára aldurs. Þetta hefur þær verkanir, að það er skilyrðislaus skylda ráðuneytisins að höfða réttlætingarmál, ef það álítur sig þurfa að víkja slíkum dómara frá embætti, sem er á aldrinum 65 til 70 ára. Aftur á móti ef þessi breyt. verður samþykkt, þá er það skylda dómarans að höfða mál gegn ríkisstjórninni, ef hann telur sig órétti beittan. Og verður að álíta, að þetta komi ekki til greina, nema hann sé nokkuð viss í sinni sök. En þá hefur hann líka fullan rétt til skaðabóta.

Eins og sést á undirskrift nál.. þá eru þarna tveir undirdómarar, sem mæla með því, að málið verði samþ., enda mun það hafa verið rætt a.m.k. af stjórn héraðsdómarafélagsins og ekki sætt andmælum þar. — Ég leyfi mér svo, fyrir hönd þess hluta n., sem hefur skrifað undir a3ál. fyrirvaralaust, að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.