16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það kunna sjálfsagt að vera einhverjar ástæður til þess, að rétt sé að samþ. þetta frv. En ég vil þó láta það í ljós, að mér þykja þær ástæður, sem fram eru færðar, ákaflega einkennilegar. Það er talað um og fært fram í grg. frv. og einnig í ræðu hv. frsm. sem aðalástæða, að því er mér skilst, fyrir þessu frv., að eins og nú stendur hafi héraðsdómarar meiri rétt en hæstaréttardómarar, þar sem ekki megi án dóms víkja héraðsdómara frá sínum störfum fyrr en hann er orðinn 70 ára gamall, en hæstaréttardómurum 65 ára gömlum. En ég sé ekki, að hæstaréttardómarar missi nokkurn minnsta rétt, þó þeim sé veitt lausn frá embætti. Því að svo er ákveðið, og ef ég man rétt í sjálfri stjskr., að þeir missa einskis í af launum, þó þeim sé þannig veitt lausn, og þeir eru einu embættismenn þjóðfélagsins, sem halda sínum fullu launum til æviloka, en héraðsdómarar, sem kynni verða sagt upp störfum, eftir að þeir eru orðnir 65 ára gamlir, þeir halda ekki fullum launum og hafa ekki annað sér til framfæris en lítilfjörleg eftirlaun, nema því aðeins að Alþ. — eins og nú er farið að tíðka um suma veiti þeim full laun. Svo að þetta finnst mér undarleg ástæða, ef þetta frv. á að vera flutt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, að héraðsdómarar hafi meiri rétt en hæstaréttardómarar. Að vísu er svo til tekið hér í frv., að þeir skuli hafa sömu eftirlaun, þegar þeim er veitt lausn þennan hátt, eins og ef þeir hefðu verið 70 ára gamlir. Og er það að vísu réttarbót. En allt annað er það heldur en að halda fullum launum til æviloka, eins og hæstaréttardómarar gera. Þó að ég sé enginn héraðsdómari og hafi engra sérstakra skyldna að gæta gagnvart þeim. þá vildi ég nú eiginlega mælast til þess, að hv. n. athugaði þetta nánar, eða þá að fram kæmu einhverjar sérstakar ástæður fyrir frv. — Svo eru mér ekki vel ljós öll ákvæði þessa frv. — Ég geri ráð fyrir, að þó að þetta frv. væri samþ. — og vil spyrja dómarana hér, hvort það sé ekki rétt skilið —, þá sé aldurshámark héraðsdómara eftir sem áður 70 ár, eins og annarra embættismanna samkvæmt l. um aldurshámark embættismanna.

Það, sem meint er með frv., er það, að víkja megi manni frá embætti þegar hann er 65 ára gamall án þess að dómi sé beitt, og mundi þá, ef þessi skilningur minn er réttur, að aldurshámarkið er 70 ár, raunverulega gilda þó þessu verði beitt við hámark milli 65–70 ára, nema því aðeins að hann þætti hafa brotið af sér. Ég vil að vísu benda á, að menn eru viðkvæmari eftir því sem þeir eldast, og gæti það ef til vill réttlætt starfið af því að setja þetta ákvæði.