16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta framsöguræðu, sem ég hélt, og ekki mikið að leiðrétta í ræðu hv. 1. þm. Eyf., því að aðalatriði frv. skildi hann rétt.

Eina breyt., sem verður með þessu frv., er sú, að héraðsdómarar fengu sérstaka vernd með lagasetningu í fyrra, áreiðanlega án þess að Alþ. átti sig á þeirri sérstöðu, sem þeim með því var sköpuð, að þeir máttu vera í embætti til 70 ára, og þeim væri ekki komið frá nema áður væri dómur genginn, sem svipti þá embættinu. Slíkrar verndar njóta eftir stjórnarskránni engir aðrir en hæstaréttardómarar, og þeir einir aðeins til 65 ára aldurs.

Um aðra embættismenn er það svo, að sá, sem hefur veitt þeim embætti, getur einnig svipt þá embættinu hvenær sem er, þótt þeir séu yngri en 65–70 ára. Þeir, sem sviptir eru embætti að ósekju, geta fengið skaðabætur úr ríkissjóði fyrir því tjóni, sem þeim þannig hefur verið valdið. Hæstaréttardómara er hins vegar ekki hægt að víkja úr embætti nema á 5 ára fresti, nema að undangengnum dómi. Þetta er gert til að tryggja setu þeirra í embætti fyrir ágangi handhafa framkvæmdarvaldsins. Líka náði það ekki neinni átt og vakti ekki fyrir mönnum að láta háttsetta embættismenn hafa meiri vernd heldur en sjálfa hæstaréttardómarana.

Frv., sem hér liggur fyrir, fer eingöngu í þá átt að fá þessu breytt. Hins vegar hefur héraðsdómari eftir sem áður þá vernd, að ef hann er látinn fara úr embætti að ósekju á þessu 5 ára tímabili, þá verður ríkissjóður að greiða honum skaðabætur. Ég tel vafalaust, ef hann er látinn fara að ósekju, þá mundu skaðabæturnar um þetta 5 ára tímabil svara til embættislauna hans á því tímabili. Þessi frávikning embættismanna er því heimild, sem yfirvaldið hafði ekki áður heimild til að gera, en þurfti að sækja undir dómstólana um það, og getur það oft tekið langan tíma, stundum ár eða fleiri, að fá endanlegan úrskurð dómsvaldsins um slíkt.

En það er óheppilegt að setja fyrirmæli um slíkt án þess að menn hafi fyrir fram gert sér grein fyrir því, hvað í því felst. En ég fullyrði, að menn gerðu sér ekki grein fyrir því varðandi þetta, þegar breyt. var gerð á s.l. þingi.

Hitt þykir mér rétt að geta um, að menn, sem komnir eru um 65–70 ára aldur, sem flestum fer að hrörna á, þá vil ég undirstrika það, að þeir eru ekki lengur jafnfærir um að gegna dómarastörfum og menn, sem ekki eru neitt farnir að láta á sjá. Þess vegna getur það orðið varhugavert varðandi hæstaréttardómara að láta menn njóta slíkrar fullkominnar verndar eftir 65 ára aldur. Og með því að láta þá njóta slíkrar verndar umfram alla aðra embættismenn ríkisins getur það leitt til þess, að embættismaður, sem hefur komið vel fram á sínum starfstíma, yrði til vandræða síðustu ár sin vegna þess, að hann er ekki lengur maður til að gegna starfi sínu, og því verði að höfða mál á hendur honum til að fá hann frá embætti. Þetta getur oft bakað tímatöf og kostar leiðindi fyrir ríkið og þann embættismann, sem í hlut á. Aftur á móti, ef á hluta manns er gengið með frávikningu, þá á hann fullan rétt til skaðabóta, einmitt full embættislaun þann tíma, sem þar er um að ræða, svo engin hætta er á, að bann fari verr út úr því en efni standa til. Að þessu athuguðu vona ég, að d. sýni málinu sama velvilja og Nd. með því að samþ. það með yfirgnæfandi meiri hluta.