16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þessi ákvæði, sem gilt hafa á ýmsum tímum um aldurshámark embættismanna, hafa fengið einatt misjafna dóma, en þó hygg ég, að það hafi verið eitt ákvæði, sem um þetta hefur veríð í l., sem þótti varhugavert, og það er ákvæðið um aldurshámark embættismanna, sem borið var fram hér á Alþ. fyrir nokkrum árum. Þá voru það ýmsir, sem vildu hafa aldurshámarkið 70 ár, en samkomulag varð um að selja þetta hámark og hafa það 70 ár, en heimilt væri ráðh. að láta embættismann fara úr embætti þegar hann er 65 ára. Ég fullyrði, að það hefur ekkert ákvæði verið í l. og ekkert sem hægt er að setja í l., sem er óheppilegra en þetta.

Ég veit það mætavel og við getum sett okkur í þau spor, að það er ekki þægilegt fyrir embættismann þegar hann er 65 ára að hafa ekki meiri réttarvernd en það, að hæstv. dómsmrh. getur sagt honum upp eins og þeim starfsmanni, sem minnst réttindi hefur. við skulum ekki vera að gera okkur neinar grillur út af skaðabótum, eftir að búið er að setja ákvæði eins og þessi. Það stendur hér skýrum stöfum, og er að því leyti sams konar ákvæði eins og áður hefur gilt, að dómsmrh. getur veitt þeim lausn eftir 65 ára aldur. Ég man ekki til á meðan ég var dómsmrh., að það kæmi oft til greina að framkvæma þetta ákvæði, og ég man ekki til, að ég hafi nokkurn tíma notað það. En ég man eftir því, að seinasti dómari, sem sat undir þessu ákvæði, var Sigurður Eggerz, og ég tilkynnti honum, þegar hann var 68 ára, að ég mundi ekki framkvæma þetta ákvæði. Ég sá undireins, að þetta samkomulag, sem þarna var gert um aldurshámark, var óheppilegt, og vildi ég þess vegna ekki ganga inn á þá braut að framkvæma það.

Ég trúi ekki á þær sögusagnir um að þetta frv. sé komið fram til að koma einum eða öðrum úr embætti, og ég geng út frá því, að það sé allt saman slúðursögur. En ég er ákaflega hræddur um, að það fari eftir því, hver er dómsmrh., hvernig þessu valdi er beitt. Hins vegar mun núverandi dómsmrh. ekki nota slíkt ákvæði nema í ýtrustu neyð, og það eru rétt rök hjá honum, að það getur verið nauðsynlegt að nota það undir þeim kringumstæðum. En ganga verður út frá því, að það verði ekki notað, en á það vil ég benda, að ef hins vegar á að nota það, þá má búast við, að hver pólitískur dómsmrh., sem tekur við af öðrum, hann gæti notað það til þess að koma eigin mönnum í embætti. Það er alls ekki rétt undir neinum kringumstæðum að innleiða slíka vinnuaðferð og ekki rétt hjá Alþ. að ganga frá l., sem gera líklegt, að slík vinnuaðferð yrði tekin upp. Með þessu getur dómari, sem er öruggur í sínu dómarasæti, átt allt í einu von á, að honum yrði vikið úr embætti, þannig að dómsmrh. geti með einfaldri ákvörðun, ef honum ekki líkar hann, vikið honum frá starfi og borið það fyrir, að hann telji hann ekki hæfan til að gegna starfinu.

Hæstaréttardómarar hafa meiri réttindi heldur en þeir dómarar, sem nú sitja íöðrum embættum hér á þessu landi. Það er vitað mál, og þarf ekki að rekja það fyrir þessari d., að hæstaréttardómarar hafa full laun, þegar þeir fara frá starfi 65 ára, en dómarar hafa eftirlaun að vísu samkv. þessum framkvæmdum, hvort sem um er að ræða 65 eða 70 ára aldur, en ekki annað en eftirlaun svipta þá réttindum. Ef þeir eru á fullum launum starfhæfir, þá er það ekki svo lítil réttarskerðing ef hægt er að víkja þeim úr embætti og setja á eftirlaun. Ég álít þess vegna, að það væri miklu nær að lækka aldurshámark embættismanna almennt. En það getur tæplega komið til mála að semja löggjöf, sem veitir dómurum landsins misjafnan rétt eða vernd eftir því hvað þeir eru gamlir að árum. Það er ekki hægt að neita því, að þau rök, sem fram komu hjá hæstv. dómsmrh. um að menn á aldrinum 65–70 ára færu að hrörna, þannig að þeim sé ekki sjálfum treystandi til að dæma, hvort þeir eru hæfir að hafa starfið eða ekki. Ég skal ekki neita því, að það er nokkuð seinfært að fara dómsleiðina, en þó er ég ekki í vafa, ef kveður mikið að þessu, að þá mætti ef til vill finna aðra leið til að koma dómurunum úr starfi heldur en þá, að um hrörnun væri að ræða. En þetta getur komið fyrir á öllum aldursskeiðum, að dómarar, sem eru yngri en 65 ára, geta hafa tapað það miklu andlega af ýmsum ástæðum og eðlilegum ástæðum, eins og alltaf kemur fyrir með menn, hvort sem þeir eru dómarar eða í öðrum stöðum, að ástæða er að víkja þeim úr starfi. Ég er ekki í vafa, að allir, sem hér eru staddir, vita slík dæmi. Þannig er það með menn í öðrum embættum, sem ekki njóta þessarar verndar, að þeir hafa óneitanlega, þó þeir séu ekki 65 ára, sýnt þá ágalla í embættinu, að ástæða hefði þótt að láta þá fara frá, þó það hafi ekki verið gert. Þess vegna, þó þessi rök hæstv. dómsmrh. séu nokkurs virði, að maður frá 65–70 ára kunni að vera sljór og hann eigi erfitt með að dæma þetta atriði, þá er því að svara, að ávinningurinn, sem þarna fæst, hann er ekki keyptur fyrir það verð, að það borgi sig að láta hæstv. dómsmrh. byrja á því að víkja úr embættum. Ég álít, að dómarar eigi að hafa þessa vernd meðan þeim er trúað fyrir að gegna starfi, sem er samkvæmt okkar l. til 70 ára aldurs. Og ef þetta ákvæði verður innleitt, þá getur það leitt til þess, að hæstv. dómsmrh. taki að nota það á óviðkunnanlegan hátt, óg sé þetta innleitt einu sinni, þá er hægt að halda áfram að misnota það, og það óttast ég. Í þriðja lagi vegna þessarar tilhneigingar, þá gæti svo farið, að dómarar milli 65–70 ára væru réttminni en aðrir embættismenn einmitt vegna þessa atriðis, og það yrði mjög illa farið.

Ég get sagt það enn aftur, að ég er ekki á móti ákvæðunum fyrir það, að ég leggi nokkurn trúnað á, að það eigi að beita þessu ákvæði eins og sögusagnir ganga um, og ekki heldur á móti því vegna þess, að ég geri sérstaklega ráð fyrir því, að núverandi dómsmrh. noti ákvæðið þannig, en um það ber svo raun vitni, hvort svo verður eða ekki. En ég hef ástæðu til að ætla, að í þetta embætti kunni að geta komið menn, sem byrja að misnota þau. Einmitt vegna þess hvað ég sá greinilega í fyrri heimildinni, sem sett var inn til samkomulags um 65–70 ára aldur, sá, hvað það var hættulegt og skaðlegt, þá er ég á móti því að innleiða neitt slíkt ákvæði. — Ég ætla ekki að eyða tíma í það að rökræða þetta mál lengur. Ég hef fært fram rök, sem mæla gegn þessari breyt.