16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær skýringar, sem hann gaf hér á þessu máli, en skýringar hæstv. ráðh. staðfesta einmitt það, sem ég hef haldið fram í þessu máli. Þessi breyt. á frv. heimilar ráðh. að setja dómara frá við 65 ára aldur. Frá mínu sjónarmiði fá héraðsdómarar minna öryggi um heiður sinn með þessari breyt., ef að l. verður, en áður. Eins og nú háttar gat ríkisstjórn veitt héraðsdómara lausn frá embætti við 65–70 ára aldur, og dómarar fóru frá með fullum heiðri samkvæmt landslögum. Sæmd hans var óskert, þó ráðh. notaði rétt sinn. Samkvæmt skýringum hæstv. dómsmrh., þá má víkja dómara frá, þó hann hafi ekki náð 70 ára aldri, en það mun leiða af sér, að flestir dómarar munu segja af sér, er þeir eru 65 ára. Þetta gæti kostað ríkissjóð allmiklar upphæðir í greiðslu eftirlauna miðað við það, ef þessir menn sætu í embættum sínum 5 árum lengur. Ef ég væri héraðsdómari, hefði ég viljað losna frá starfi um 65 ára aldurinn, heldur en að eiga á hættu að þurfa að fara frá með ráðherraskipun.

Að öðru leyti kvaddi ég mér hljóðs til þess að fá skýringu hjá hæstv. dómsmrh., en ekki til þess að deila. Þó hæstv. ráðh. hafi gefið hér nokkrar skýringar á þessum málum, þá hefur engin skýring komið hér fram á því, sem segir í grg. frv., að héraðsdómarar hafi meiri rétt en hæstaréttardómarar. Hæstaréttardómurum er veitt lausn frá embætti við 65 ára aldurinn, og geta frá þeim tíma unnið að hugðarefnum sínum. Mér finnst nokkuð undarlegt, að tveir héraðsdómarar hafa mælt með þessu frv. Þeir um það, en mér finnst það undarlegt, og ég skal ekki blanda mér frekar í umr. um þetta mál.