04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

55. mál, brunavarnir og brunamál

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál, en get látið nægja að skírskota til nál. og þeirra brtt., sem n. hefur borið fram, sem ekki eru stórvægilegar. Ég get að vísu sagt það af hálfu n., að hún var í nokkrum vafa um nokkur atriði í frv., hve ýtarlega skyldi taka þau fram. t.d. um slökkvitæki og ýmislegt þess konar. En þegar athugað er, hve efni þessa máls er margþæft, leizt n. sem ekki væri hægt að hafa tæmandi ákvæði þar að lútandi í löggjöfinni sjálfri, heldur væru lögin fremur sem heildarrammi, sem fyllt væri nánar út í með reglugerð. Því að bæði kann þetta að breytast eftir byggingum og öðru á hverjum tíma, og þess vegna þykir okkur nm. ekki fært að selja um þetta tæmandi ákvæði í löggjöf. T.d. bar það á góma í n., að almenn fræðsla um þessi mál væri nauðsynleg, og jafnvel ætti helzt að taka hana upp í skólum, upplýsa ungmennin um það t.d., hvernig þau ættu að haga sér ef eldsvoða bæri að höndum, bjarga sér og öðrum. Skólarnir þyrftu að láta í té einhverja þekkingu í þessum efnum. Hið sama er að segja um meðferð hinna einföldustu heimilistækja, slökkviáhalda og björgunartækja, að mönnum er mjög ósýnt um að nota þetta. N. átti tal við Sigurjón, sem nú er forstöðumaður brunamálanna, og talaði einnig við brunaeftirlitsmenn, sem ferðazt hafa um landið, og höfðu þeir orðið þess greinilega áskynja á ferðum sínum um landið, að menn eru býsna fákunnandi um það, hvernig á að nota hin einföldustu slökkvitæki, sem fást í verzlunum. Auðvitað ber ekki að skilja þetta svo, að einhverjir menn á hverjum stað kunni ekki að fara með þessi tæki, en það er ekki nóg, og það er óhjákvæmilegt, að almenningur öðlist þekkingu á þessu. En allt þetta sýndist okkur eðlilegra, að kæmi í reglugerð, og væri vel til fallið, ef ríkisstj. kæmi þessu í betra horf meðal almennings úti um land. Hið sama er að segja um notkun á köðlum og björgun úr brennandi húsum. Það er skemmst að minnast brunans á Laugarvatni. Þar þurfti aðeins ein stúlka á kaðli að halda, og hann var við höndina, og stúlkan notaði kaðalinn eitthvað til að bjarga sér fyrst í stað, en sleppti tökum á honum áður en hún var komin niður og meiddist við það. Það getur að sönnu alltaf viljað til, að menn missi stjórn á sér undir slíkum og líkum kringumstæðum, en þó er ég ekki í neinum vafa um það, að í flestum tilfellum mundu menn vera öruggari og rólegri undir slíkum kringumstæðum, ef þeir hefðu þekkingu og æfingu í að nota sér björgunartækin.

Ég vil af hálfu allshn. beina því til ríkisstj. eða þess ráðh., er um þessi mál fjallar, að það væri vel til fallið að gera eitthvað í þessa átt. er ég hef lýst, til þess að upplýsa almenning og koma betra skipulagi á þessi mál. Í háum húsum þarf kaðall að vera í hverju herbergi. Það felst vafalaust í þessu frv., en þó væri réttara að taka það betur fram í reglugerð.

Ég hirði ekki að fara nánar út í þessi atriði, en kem þá að brtt. okkar.

1. brtt. er við 31. gr., en samkvæmt frv. skyldar þessi gr. alla kaupstaði og kauptún, sem hafa 200 íbúa eða fleiri, til þess að hafa hæfileg slökkviáhöld og björgunartæki, en við teljum, að ekki sé rétt að binda þessa skyldu við íbúatöluna. Við hvaða tölu skuli binda þetta, má að vísu nokkuð deila um, en n. fannst ekki óeðlilegt að miða þetta við 200 íbúa. En við höfum lagt til, að bætt verði við gr., þ.e. við 31. gr., að á eftir orðunum „sem hafa 200 íbúa eða fleiri, sbr. 2. gr.“ komi: svo og öðrum stöðum, þar sem um sérstaklega verðmætar byggingar eða eignir er að ræða að dómi ráðuneytisins.

2. brtt. n. er um það, að l. þessi verði ekki látin ná til Rvíkur. Þó var n. í nokkrum vafa um réttmæti þessarar breyt., en að svo vöxnu máli vildi n. ekki selja sig á móti því að samþykkja þetta, þar sem henni höfðu borizt eindregnar óskir um það. En með því að undanskilja Reykjavíkurbæ frá l. þessum, þá gæti verið nokkur hætta á, að önnur bæjarfélög mundu bera fram sams konar óskir, en með því gætu l. þessi misst marks. Þrátt fyrir þetta vildi n. ekki setja sig á móti þessari breyt.

3. brtt. n. er breyt. á fyrirsögn frv. Leggjum við til, að fyrirsögn frv. verði: Frumvarp til laga um brunavarnir og brunamál. — Okkur fannst rétt að breyta heiti l. á þennan veg, og er óþarfi að hafa fleiri orð um það.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál nú.