09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Forsrh. var að tala um till. mína um leiðrétting rangrar vísitölu og taldi, að ég hafi fyrr haft betri aðstöðu til að leiðrétta slíkt, en vanrækt það. Þótt við sósíalistar höfum átt setu í ríkisstj., hefur ekki verið hægt um vik að fá samþ. á Alþ. kjarabætur handa launþegum í landinu. Við sósíalistar höfum stutt verkalýðinn í viðleitni hans til að bæta kjör sín, en ef hæstv. forsrh. vill halda því fram, að ég og minn flokkur höfum ekki reynt að bæta aðstöðu verkalýðsins í landinu, fer hann með rangt mál. Undanfarin 6 ár hefur verið unnið að því af verkalýðnum og Sósfl., að verkalýðurinn fengi hækkað kaup sitt. En ég er hræddur um, að hæstv. forsrh. hafi látið þetta tækifæri ganga sér úr greipum. Verkalýðurinn hefur á undanförnum 5–6 árum knúið fram grunnkaupshækkun, en hæstv. forsrh. og hans flokkur hefur alltaf, og síðast í sumar, barizt gegn þessu eftir megni. Vitanlega hafa þessar grunnkaupshækkanir bætt kjör verkalýðsins og leiðrétt rangláta vísitölu. Þessar kröfur hafa meðal annars verið studdar með því, hve mikið húsaleiga hefur hækkað. Ef hæstv. forsrh. álasar mér fyrir að hafa ekki lagt mig allan fram, þá vil ég því til svara, að það hefur ekki verið aðstaða til þess á Alþ. að leiðrétta vísitöluna, en verkalýðurinn hefur knúið fram leiðréttingu með samtökum sínum. Það var sanngjarnt að bæta hlut starfsmanna ríkis og bæja eins og gert var með launalögunum. Við sósíalistar höfum reynt að vinna gegn ranglátri vísitölu. Og ef hæstv. forsrh. heldur, að framsókn verkalýðsins hafi verið stöðvuð með launalögunum, þá er það misskilningur. En hvað snertir vísitöluna, þá er sú röksemd, sem fram kom í brtt. hv. þm. V-Ísf., að vísitalan hefði aðeins fræðilega þýðingu, brott fallin. Vísitalan hefur praktíska þýðingu, þar eð hún hefur í för með sér kauphækkun. Og ef þetta hefði komið fyrir vísitölulækkunina, hefði það hækkað vísitöluna um 15–18 stig. Nú berst hv. þm. gegn hækkun og talar um, að sér þyki leitt, að vísitalan skuli ekki hækka kaupið, en þar sem hún sé aðeins fræðileg, sé það ómögulegt. En úr því að vísitalan hefur aðeins fræðilega þýðingu, þá ætti að vera óhætt að láta reikna hana út. Verðlagsvísitala á fyrst og fremst að vera fræðileg og vísindaleg mynd af ástandinu í þessum málum í landinu. Sú mynd á að vera rétt, og eru það næg rök til að samþ. þetta frv. og sjálfsagt að verða við þeim tilmælum að leiðrétta vísitöluna. Ég vonast til, að hinn sami meiri hl., sem hefur gert vísitöluna að rangri vísitölu, vilji heldur byggja á því, sem sannara reynist, og gangist því inn á þetta. Ég vil vonast til, að þeir styðji að því að fá réttan, fræðilegan grundvöll fyrir vísitölunni og að menn geti fengið réttar heimildir frá ha„stofunni. En það er fleira, sem þarf að leiðrétta. Húsaleiguvísitalan var tekin sérstaklega til umræðu, þegar séð var, hve ranglát hún var. Ríkisstj. lét taka hana sérstaklega út úr um áramótin og reikna hana sérstaklega út. Það er misskilningur hjá hv. þm. V-Ísf., þótt 7 eða á 8. þúsund gamlar íbúðir væru af 11 þúsund í Rvík 1940, að 70% eigenda eða leigjenda sitji í gamalli leigu. Ég hygg, að í ekki helmingi íbúða sitji menn með gamla leigu. í skýrslu, sem húsaleigunefnd hefur látið gera og ríkisstj. mun hafa. en ekki þm., mun þetta vera upplýst, hve margir sitji í gamalli leigu, og munu það vera miklu færri en 70%, og ég efast um einu sinni 50%. En um þetta verður að láta í té nákvæmar og áreiðanlegar heimildir.

Hv. 8. þm. Reykv. og hv. 11. landsk. flytja till., sem tryggir verkamönnum rétta kaupgreiðslu í desembermánuði. Hv. 8. þm. Reykv. hefur fært rök fyrir þessu og hæstv. forsrh. ekki mótmælt þeim, enda ekki hægt. Um helmingur þm. munu vera launaðir embættismenn ríkisins og hafa hlotið desemberlaun með hærri vísitölu en verkamenn. Það er því ekki hægt fyrir þá að skammta verkamönnum minna en sjálfum sér og ríkið starfsmönnum sínum. Hæstv. forsrh. taldi svo langt um líðið, að ekki tæki því að fara að leiðrétta þetta. Þetta kalla ég slæman móral, að láta óréttinn viðgangast af því, að svo langt er um liðið síðan hann var framinn. Hvernig færi þá með dóma, ef óréttur eða glæpur fyrntist 2 mánuðum eftir að hann vær í framinn? Þetta getur ekki svo gengið og verður að lagfærast, og Alþingi og þm. ættu að sjá sóma sinn í því að leiðrétta þetta sem fyrst og láta verkamenn ná rétti sínum á borð við aðra launþega í landinu. Því var marglofað hér á þinginu 1942, að þegar vísitalan lækkaði, skyldu verkamenn fá uppbót. Vil ég því eindregið mæla með þessari till. Það er rétt hjá forsrh., að ég kom ekki fram með brtt. um þetta, þegar dýrtíðarlögin voru rædd. Stj. hafði nægan tíma til að útbúa þau, en stjórnarandstaðan hafði nauman tíma. varla til að lesa þau. Er því engin furða, þótt okkur yfirsæist í einhverju. En nú, eftir að verkalýður landsins hefur bent á þetta, ættu þm. að sjá sóma sinn í því að leiðrétta það, sem miður fer.