09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 11. landsk. brtt. við frv. til l. um viðauka við l. nr. 128 1947, um dýrtíðarráðstafanir. Þessi till. fjallar um vísitöluuppbótargreiðslur á laun verkamanna, og á mál þetta sér nokkra sögu. Till. er tilraun til að ná rétti okkar verkamanna, en samkv. samningi við atvinnurekendur er kaup greitt með vísitöluuppbót fyrir mánuðinn eftir að unnið hefur verið fyrir því. Verkamenn voru því búnir að borga vörur í 1–11/2 mánuð með hækkuðu verði samkv. vísitölu áður en vísitöluhækkunin kom fram á kaupi þeirra. Þannig var þessi samningur við atvinnurekendur. Vísitalan sem í desember átti að greiða kaup eftir, var 328 stig. en samkvæmt dýrtíðarl., sem sett voru um áramót, átti að greiða kaup samkv. vísitölunni 300 stig. Þegar því kaup fyrir desember var greitt eftir áramót samkv. þeim samningi að greiða kaupið eftir á, þá var það greitt samkv. l. um 300 stiga vísitölu, en hefði auðvitað átt að greiðast eftir 328 stiga vísitölu, en það er það, sem við viljum fá lagfært með till. okkar, — sem sagt að kaup fyrir desember verði greitt eftir gömlu vísitölunni, 328 stiga.

Mál þetta hefur komið fyrir félagsdóm, en hann hefur úrskurðað, að við hefðum ekki rétt til kaupgreiðslu í janúar samkv. vísitölu í desember. Kauplagsn. hefur ekki heldur viljað taka þetta til greina í sínum útreikningi. Nú er litið þannig á og framkvæmt þannig, að starfsmenn ríkisins fengju greidd laun sín fyrir vinnu í des. samkv. desember-vísitölu, og þess vegna þykir okkur verkamönnum eðlilegt, að eins verði okkur greitt fyrir vinnu á sama tíma, og ríkisstj. hlýtur að líta þannig á alla þjónustu innta af hendi í desembermánuði.

Sérstaklega er eðlilegt, að þessi brtt. okkar verði samþ., þegar þess er gætt, að þeir verkamenn, sem unnu fyrir tímakaupi í des., fengu greitt kaup samkv. vísitölu í þeim mánuði. Það virðist undarlegt, ef hér eiga að gilda tvenns konar reglur, þannig að vinnuveitendur, sem greiða verkamönnum mánaðarkaup, eigi viðkomandi desemberkaupgreiðslu, að hafa meiri fríðindi en það opinbera og meiri fríðindi en þeir, sem greiða verkamönnum tímakaup. Einmitt til þess að leiðrétta þetta misræmi höfum við hv. 11. landsk. flutt þessa brtt., og við væntum þess fastlega, að hún verði samþykkt.