09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. Hér hafa nú komið fram tvær brtt., og hefur verið talað fyrir þeim. Mér þykir því réttur tími til að skýra frá því, að meiri hl. fjhn. leggur á móti þeim.

Ég hef aðeins litlu að bæta við það, sem hæstv. forsrh. sagði. Hvað viðvíkur till. hv. 11. landsk. og 8. þm. Reykv., þá hefur félagsdómur úrskurðað, að verkamönnum skyldi ekki greidd þessi vísitöluuppbót fyrir desember, og samkv. þeim úrskurði félagsdóms, sem byggður er á gildandi l., vill n. ekki mæla með till.

Hvað snertir till. minni hl. fjhn., þá er meiri hluti n. henni mótfallinn. Ég hef ekki lesið grg. hv. 2. þm. Reykv. nákvæmlega, en meiri hlutinn telur, að aldrei hafi verið minni ástæða til að breyta þessu en einmitt nú. Öllum er það kunnugt, að verðlagsvísitalan a.m.k. hefur verið vafasöm síðan árið 1942, ef ekki fyrir alla, þá a.m.k. fyrir marga. Það hefur því aðeins fræðilega þýðingu að fara nú að reikna út þessa vísitölu, og það er vel hægt að gera sér hana ljósa. En að ríkisvaldið fari nú að fyrirskipa útreikning meðalvísitölu, tei ég óþarft. Það kæmi aðeins örfáum að gagni. Sá húsaleiguútreikningur, sem gerður yrði hér í Rvík, gæti aldrei orðið í samræmi við húsaleigu annars staðar á landinu, og því gæti ekki verið rétt að reikna eftir þeirri húsaleiguvísitölu, sem hv. 2. þm. Reykv. vill láta finna. Meiri hluti fjhn. er því á móti því að láta reikna þetta út, því það gildir fáa eða enga hvort það er gert.