09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil víkja nokkrum orðum að þeim rangindum. sem höfð hafa verið í frammi við verkamenn, og víkja um leið að nokkru að ræðu hæstv. forsrh. — Margir launþegar höfðu réttilega búizt við að fá þessa uppbót fyrir desembermánuð og treyst á það. Það er rangt hjá hæstv. forsrh., að þetta hafi aðeins numið 2 stigum. Það er að segja frá 326 stigum til 328. En þetta er rangt, þar eð venja er að greiða vísitölu fyrir nóvember í desember og desembervísitölu í janúar. Af þessu leiðir, að mismunurinn er ekki 2 stig, heldur 26, og er það ekki svo lítill munur. Nú er þess að gæta. að starfsmenn hins opinbera hafa fengið þetta greitt að fullu, en verkamenn fá ekki þessa uppbót nema 11 mánuði ársins. Þungamiðjan í málinu er sú, að löggjafinn hefur litið svo á, að greiða bæri þessa uppbót, þar eð hann hefur greitt sínum mönnum hana, en aðrir atvinnurekendur greiða aðeins fyrir 11 mánuði ársins Þetta þarf að leiðrétta, og treysti ég því, að hv. þm. vilji leiðrétta og bæta fyrir þau rangindi; sem hér hafa verið höfð í frammi við hina vinnandi stétt í landinu, og láti það ekki viðgangast. að þeir atvinnurekendur í landinu, sem hafa menn í þjónustu sinni, þurfi minna að greiða þeim en hið opinbera greiðir þeim mönnum, sem hjá því vinna.