19.03.1948
Efri deild: 82. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

12. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. var í upphafi þessa þings eða mjög snemma á þinginu flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin um þetta efni á síðasta sumri. Það hefur dregizt í hv. Nd. lengur en æskilegt var að afgreiða málið, sem stafaði af því, að hv. fjhn. þeirrar d. breytti því nokkuð að formi, sem tafði afgreiðslu þess um hríð. En nú hefur náðst um það eiginlega fullt samkomulag að heita má, svo að ég vænti, að hv. Ed. sjái sér fært að afgreiða það, áður en þessu þingi lýkur. Ef það skyldi ekki ná fram að ganga, tel ég, að það geti valdið talsverðum vandræðum og erfiðleikum, og tel ég því nauðsynlegt, að það fái afgreiðslu á einhvern hátt.

Ef nauðsynlegt þykir að vísa málinu til n., þá væri það fjhn., sem ætti að athuga málið. En það er ekki till. frá mér um það.