04.11.1947
Neðri deild: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

61. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það eru nú liðin um tólf ár síðan undirbúningi að byggingu sementsverksmiðju var fyrst hreyft hér á hæstv. Alþ. Það var þá gert í tilefni af rannsóknum, sem sýndu, að á vissum stöðum á Vesturlandi var skeljasandur mjög blandinn kalki, allt upp í 80 til 90% og talinn því inni að halda meginefni þess, sem notað er almennt til sementsgerðar. Árið 1935 var samþ. þáltill. þar sem skorað var á ríkisstj. að láta fara fram athugun á möguleikum um framleiðslu sements hér á landi. Árin 1936 og 1937 fór svo fram athugun á kalksandi víðs vegar um landið og ýmsum atriðum, sem nauðsynleg voru í sambandi við sementsgerð, og kom þá fram áframhaldandi sönnun þess, að sérstaklega sums staðar á Vestfjörðum er feikna mikið af gömlum skeljasandi, sem er svo kalkauðugur, að hann er fyrsta flokks hráefni til sementsgerðar. En það kom í ljós einnig, að önnur efni, sérstaklega kísilsýra eða kísill, voru af mjög skornum skammti á þeim svæðum, sem rannsóknir fóru fram á. Þó var talið, að unnt væri að fá nóg hráefni innanlands. sem þyrfti til sementsgerðar. En eftir því sem málið horfði þá við, var álitið, að það hefði mikinn kostnað í för með sér. Till. danska verkfræðingsins, sem hafði þessar rannsóknir með höndum, gerði ráð fyrir, að sandurinn yrði fluttur af Vesturlandi hingað í námunda við Rvík, þar sem sementsverksmiðja yrði sett upp. En til þess að afla nægilega mikils kísils til verksmiðjunnar, taldi hann nauðsynlegt að taka hverahrúður af Reykjanesi og frá Geysi og viðar að, til þess að fá nóga kísilsýru til sementsgerðar. Taldi hann eftir rannsóknir sínar, að það miklar kísilbirgðir væri þar að finna í hverahrúðrinu, að það gæti enzt til sementsgerðar fyrir landið um nokkurt árabil. En allur þessi kostnaður, sem hann gerði ráð fyrir í sambandi við sementsverksmiðjuna, var mikill og erfiður í vöfum, og með samanburði við sementsþörf landsins, sem var fremur lítil þá, sýndi sig, að fremur mundi vera örðugt að framleiða hér sement. sem væri í sölu samkeppnisfært við það sement, sem við áttum og eigum kost á að kaupa frá útlöndum, þannig að þessi hugmynd féll niður í bili. Síðan komu stríðsárin, og féllu umr. um þetta mál þá að mestu niður. Svo var það tekið upp aftur. Mér skilst, að nýbyggingarráð hafi tekið það upp 1945, og var það gert í sambandi við ungan mann, sem hafði kynnt sér sementsgerð, Harald Ásgeirsson verkfræðing, sem hafði farið til Ameríku og fengið styrk til þess að kynna sér sementsvinnslu og sementsgerð. Eftir að hann kom til landsins, setti nýbyggingarráð sig í samband við hann og hófst handa um, að nýjar rannsóknir yrðu byrjaðar á þessu sviði. Skrifaði svo nýbyggingarráð atvmrh., sem hafði einnig umsjón með Atvinnudeild háskólans, og skipaði þáv. atvmrh. (ÁkJ) Harald þennan til þess að hafa þessar rannsóknir með höndum og fól Atvinnudeildinni að taka málið að sér með því að taka Harald sem starfsmann til þessara hluta. Árið 1945, og þó sérstaklega árið 1946, unnu þeir að þessu, Haraldur Ásgeirsson og Tómas Tryggvason jarðfræðingur, og gerðu athuganir, sérstaklega vestra, á hráefni, sandi og öðru slíku, sem nauðsynlegt er til sementsgerðar. Og niðurstaða þeirra er sú, að unnt sé að fá hér innanlands, og það meira að segja á sama staðnum — og benda þeir í því efni sérstaklega á Önundarfjörð — svo að segja öll hráefni, sem nauðsynleg eru til þess að hafa hina beztu sementsgerð hér á landi. Þeir telja, að í sandinum í Önundarfirði, sem að vísu sé ekki eins kalkauðugur og annar kalksandur í nágrenninu, þar sé að finna kísilefni og önnur efni, sem nauðsynleg eru til sementsgerðar, og telja aðeins teknískan hlut, sem sé þó ekki vandalaust verk, að blanda efnin og hreinsa þau þannig, að falli vel til hráefnis, sem sement almennt er unnið úr, og að það þyrfti þá ekki að sækja annað efni að til þessa staðar en gips af efnum til sementsgerðarinnar. Hef ég látið prenta álit þessara manna, sem ég nefndi, sem hafa verið látnir annast rannsóknir þessar, með í grg. með þessu frv., til þess að hv. þingmenn geti kynnt sér þau með eigin augum.

Það var till. Haralds Ásgeirssonar verkfræðings, að hafizt yrði handa um að reisa fullkomna sementsverksmiðju við Önundarfjörð, þar sem gert væri ráð fyrir 75 þús. tonna afköstum á ári, og gerir hann ráð fyrir, að hún muni kosta uppkomin um 15 millj. kr., sem á hins vegar að vera arðbært fyrirtæki, svo að hún geti í rekstri greitt sig niður á hæfilegum tíma. Og hann telur, að það sement, sem hún framleiði, verði samkeppnisfært við erlent sement, miðað við það verð, sem á sementi er nú, og með þeim kostnaðarliðum, sem hann reiknar með í útreikningi sínum. Að vísu ber þess að geta, að ekki er fyllilega ljóst í áætluninni, hvernig hentugast muni að koma fyrir flutningi á sementinu. Að vísu gerir hann ráð fyrir, að ódýrast muni að flytja sementið laust í skipi ósekkjað og hafa sekkjunarútbúnað um borð í því og sekkja það áður en því er skipað í land. En allmikinn kostnað hefði það í för með sér. Það skip yrði vitanlega dýrt. Og það er ekki nákvæmlega búið að ganga frá þeim lið málsins. En mjög sennilegt er, að það yrði nauðsynlegt að hafa þetta fyrirkomulag á þessu. Því að ef maður reiknaði með þeim töxtum, sem nú eru á vinnu kringum landið, og með þeim skipum og skipakosti, sem við höfum nú við að búa, getur orðið örðugt að gera sementið samkeppnisfært við erlent sement á aðalinnflutningshöfnum landsins. Því að þá yrði þetta að skoðast sem eins konar innflutningshöfn, þar sem verksmiðjan væri, og kostnaður að leggjast á aðrar hafnir af flutningnum frá verksmiðjunni og kringum landið.

Það er í þessu efni eins og venja er til um áætlanir hjá okkur, sérstaklega varðandi ný fyrirtæki, sem við höfum ekki verulega reynslu til að byggja á áætlun um, að maður er alltaf hræddur fyrir fram, og er skylda af reynslunni að vera nokkuð hræddur um, að ýmsir liðir kostnaðarins fari fram úr áætlun frá því, sem upphaflega er ráðgert. Og ég geri ráð fyrir, að svo geti einnig farið um þessa áætlun, þó að hún sé vel og samvizkusamlega gerð. En ég tel, að þær upplýsingar, sem hér liggja fyrir, og þessi rannsókn, sem þetta allt er byggt á, sé það mikils virði, að sjálfsagt sé að draga ekki lengur þann nauðsynlega undirbúning, sem þarf til þess að koma slíkri stofnun upp. Það tekur alltaf — og ekki sízt nú — langan tíma t.d. að fá smíðaðar þær vélar og þau tæki, sem nauðsynleg eru til svona starfrækslu. Og þó að byrjað væri nú að leita fyrir sér um samninga, mundi það taka nokkur ár, þar til fengnar væru fullsmiðaðar allar nauðsynlegar vélar til sementsverksmiðjunnar. En ef við sannfærumst um það Íslendingar, — og það liggur nú fyrir í till. þessara manna, sem hafa þetta með höndum, — ef við sannfærumst um það, að við getum framleitt sement með svipuðu verði og von er um, að við fáum það frá útlöndum, þá liggur í augum uppi. að slíkt fyrirtæki sem þetta á að vera eitt af því fyrsta, sem við eigum að koma upp. Ef nokkrar verulegar framkvæmdir og atvinnulíf verður í þessu landi, þá er ekki vafi á því, að geysileg þörf verður hjá okkur fyrir sement, bæði til byggingarframkvæmda, vegagerða, hafnargerða, virkjunarframkvæmda og annars slíks. Og það hefur ekki lítið að segja fyrir þjóðina, ef hún getur orðið, þó að ekki verði alveg, en nokkurn veginn óháð ráðstöfunum erlends gjaldeyris við þær framkvæmdir, sem hafa mikla sementsnotkun í för með sér.

Nú skal ég aðeins geta þess, að þessir útreikningar á kostnaðarliðum, sem byggt er á í þessum áætlunum, sem hér liggja fyrir frá þessum mönnum, sem ég hef nefnt, eru að vísu miðaðir við nokkru lægra kaupgjald en það, sem er í aðalvinnustöðvum landsins, og eru reiknaðir með annarri vísitölu, þannig að ef nauðsynleg leiðrétting er gerð á áætluninni í þessum efnum, miðað við núverandi ástand í þeim, þá hækka ollir liðirnir, sem byggjast á vinnulaunum, um 10–12% frá niðurstöðu verkfræðinganna. Auk þess má geta þess, að ef ríkið hættir að geta greitt niður vinnulaun eins og það gerir nú með niðurgreiðslu á ýmsum afurðum, sem ganga inn í vísitöluna, þá mundu vinnulaun, sem hér er gert ráð fyrir, hækka um 50%. Þannig að þótt hér liggi þetta mál frammi sem framtíðarmál. þá er framkvæmd þess bundin því, hvernig okkur tekst að koma því viti í verðlagsmálin, að þetta fyrirtæki og önnur geti þrifizt. En svo mikið þykist ég sjá á þessum útreikningum og niðurstöðum verkfræðinganna, að ef okkur tekst að koma verðlagsmálum okkar í það lag', sem nauðsynlegt er til þess að við getum haldið áfram að flytja út fiskinn. þá mundi það hafa þau áhrif á fyrirtæki eins og þetta, að það mundi verða samkeppnisfært við erlendan iðnað um öflun þessarar vörutegundar. Og þess vegna er þetta frv. borið fram, í þeirri von, að hæstv. Alþ. og ríkisstj. beri gæfu til þess að laga þannig verðlagsgrundvöll undir atvinnu- og verðlagsmálum þjóðarinnar, að bæði þetta og önnur fyrirtæki geti borið sig. Og í þeirri von, að svo fari, legg ég þetta frv. fram fyrir hönd ríkisstj. og vonast til, að sú n., sem fær það til meðferðar, kynni sér einstök atriði þess og ræði um málið við þá sérfræðinga, sem hún getur náð til og hér eru í bænum. Og ég legg til, að frv. verði vísað til hv. iðnn., að þessari umr. lokinni.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta mál. Það eru svo margvíslegar upplýsingar, sem frv. fylgja og prentaðar eru í grg. þess fyrir þá hv. þm., sem hafa sérstaklega áhuga á að fá nánari upplýsingar um málið og á annað borð unnt er að fá.