19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

61. mál, sementsverksmiðja

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um þetta frv. Ég get ekki hælt mér af því að hafa vit á möguleikum, sem hér eru til sementsverksmiðju. Þar verð ég eins og aðrir þm. að byggja á sérfræðingum. Ég hygg nú, eftir þeim rannsóknum, sem fram hafa farið, að tími sé kominn til að gefa hæstv. ríkisstj. heimild til að byggja sementsverksmiðju. Ég þakka því hæstv. ráðh. fyrir að flytja frv. og mæli með samþykkt þess. Mér er það ljóst, sem hæstv. ráðh. tók fram, að til þess að framkvæma þetta og ýmislegt annað, sem bíður, þá mundi nú, ef framkvæma ætti þessa hluti á næstunni, verða að taka gjaldeyrislán. En ég tel það enga fjarstæðu, heldur sjálfsagt að fara þá leið, þegar um er að ræða að auka framleiðsluna til útflutnings eða að draga úr innflutningi, eins og hér er um að ræða. Gjaldeyrislán er sjálfsagt að taka til fyrirtækja, sem búið er að rannsaka, að muni skapa eða spara gjaldeyri. — Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma, en ég vona það, að þær vonir okkar komi til með að rætast og þær vonir, sem þessir sérfræðingar hafa skapað um þessa möguleika, því að okkur er það mikils virði að þurfa ekki að flytja inn þessa vöru, sem þjóðin notar til allrar byggingar, bæði á vegum, höfnum og húsum o.fl.

Það er eitt smáatriði, sem ég vil þó minnast á. Vitanlega er það algengt og fullkomið aukaatriði í þessu sambandi, en þ.e. 7. gr., um útsvör. Ég hefði fellt mig fullt eins vel við hana eins og hún er í frv., þ.e. að hafa veltuútsvar, sem þó takmarkast af því, hvort nokkur ágóði er hjá fyrirtækinu, og að það verði ekki miðað við verð á innlendu sementi, heldur við verð, sem svarar til innflutts sements á sama tíma. Þessi regla þykir mér heppilegri, þó að ekki megi leggja meira á en sem nemur 50% af nettótekjunum miðað við erlent sement. En hv. n. leggur til, að útsvarið miðist eingöngu við tekjuafgang, en hann er ekki á neinn hátt miðaður við útlent sement. Ég vildi nú benda á þetta, því að ég felli mig betur við veltuútsvar en útsvar á tekjuafgang. Vegna þess, hvernig fyrirtækið er byggt upp, er því ekki ætlað fyrst og fremst að hafa tekjuafgang, heldur að spara gjaldeyri og framleiða þá með því verði, sem væri samkeppnisfært. Þetta er ekki hlutafélag og ekki ætlazt til að safna fé frá einstökum mönnum, heldur er ríkinu ætlað að standa undir því sem sjálfstæðri stofnun.

Það er annað smáatriði, sem ekki var með í till. n., en það er mér að kenna, því að ég hafði ekki fengið óskir um það fyrr en n. hafði skilað áliti, en það er, eftir því sem lagt er til í frv. og þó aðallega í grg. þess, ætlazt til, að sjálf verksmiðjan skuli standa norðan Önundarfjarðar, þar sem bezt eru hafnarskilyrðin, en hráefnin tekin að vestanverðu. Önfirðingar telja margir æskilegra, að útsvarið gæti skipzt milli þessara tveggja hreppa, annaðhvort á þann hátt, sem hrepparnir koma sér saman um, eða þá eftir úrskurði ráðh., og þá sennilega atvmrh., er yrði ráðh. þessarar verksmiðju.

Vegna þessarar viðbótar, sem mig langaði til að koma við, vildi ég spyrja hv. frsm. n., hvort hann væri ekki tilleiðanlegur að geyma fyrri till. til 3. umr. Það ætti ekki að valda tjóni, en mér gefst þá kostur á að ræða þetta smáatriði við n. á milli umr.