19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

61. mál, sementsverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. atvmrh. langar mig til þess að spyrja hann nokkurra spurninga. Hv. þdm. virðast ekki vera ósammála hvað viðkemur frv. sjálfu, en ég skil ekki þau ummæli hæstv. ráðh., að ekki sé unnt að leggja nægilegt til hliðar af þeim erlenda gjaldeyri, sem aflast, til framkvæmdar þessa máls. Hæstv. ríkisstj. tók að sér með samþykkt l. um fjárhagsráð að áætla innflutning og útflutning og setja ákveðna gjaldeyrisupphæð á sérstakan reikning, sem nota skyldi til atvinnutækja og nýrra framkvæmda. Hæstv. ríkisstj. hefur skuldbundið sig til að leggja þetta fyrir Alþ., leggja fyrir Alþ. þessar áætlanir. Nú er það vitað mál. að þetta fyrirtæki, sementsverksmiðjan, muni spara 8,5 millj. kr. á ári í erlendum gjaldeyri. Sementsverksmiðja mun því borga sig upp á einu ári gjaldeyrislega séð. Gjaldeyrislega séð mun hún geta borgað sig fyrir þjóðina á einu ári, en hitt er spurning út af fyrir sig, hvort fara eigi til útlanda til þess að taka lán til þessarar verksmiðju. Það mátti e.t.v. skilja á hæstv. ráðh., að ríkisstj. ætti erfitt um vik að fá lán til þessa fyrirtækis hér innanlands, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki fundið náð í augum embættismanna Landsbankans og að hún kjósi heldur að fara út fyrir pollinn til manna, sem velviljaðir væru og gætu skilið nauðsyn þessa máls, eftir þeirri reynslu, sem fengin er. Ef það er ekki þetta, sem hæstv. atvmrh. átti við, þá kann að vera, að hann viti ekki enn, hvernig ráðstafa eigi gjaldeyrinum. Það er ákveðið með l., hvernig ráðstafa eigi hluta af þeim gjaldeyri, sem aflast á árinu, og Alþ. getur því ekki tekið þessa yfirlýsingu sem réttmæta. Það má og teljast mjög undarlegt. að við alþm. sjáum það í einu blaði í Rvík, að einn nm. úr fjhn. hefur skýrt frá því, að innflutnings- og útflutningsáætlunin fyrir árið 1948 sé nú tilbúin, þótt hún hafi ekki verið lögð fyrir þm. Það hefur verið gengið fram hjá alþm. með þetta, en hins vegar er skýrt frá þessum áætlunum á öðrum vettvangi, og þaðan fá svo þm. að vita, að einhverjar áætlanir hafi verið gerðar. Ég hef spurt menn úr viðskiptan., hvort þeir hafi séð þessa áætlun, en þeir segjast ekkert vita um hana. Ég verð nú að segja það, að við þm. hljótum að krefjast þess að fá að sjá þessa áætlun, sem okkur ber samkvæmt l. um fjárhagsráð og innflutningsverzlun. Fjárhagsráð á að skila innflutningsáætlun sinni til þingsins. Mér skilst, að gert sé ráð fyrir innflutningi á þessu ári fyrir I00 millj. kr., og er þá reiknað með 400–500 millj. kr. gjaldeyrisöflun. Samkv. l. um fjárhagsráð hefur hæstv. ríkisstj. sjálf sett inn í l. ákvæði um, að leggja skuli 15% af gjaldeyristekjum ársins inn á sérstakan reikning til nýsköpunar. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur framkvæmt þetta, en ef reiknað er með 400 millj. kr. útflutningi og 15% hans sé lagt inn á nýbyggingarreikning, þá ættu að hafa sparazt 60 millj. kr. á árinn 1946 og í árslok 1947 um 90 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Og ef svo er reiknað með 400–500 millj. kr. útflutningi á þessu ári, ættu að fást alltaf 60 millj. kr. á nýbyggingarreikning. Nú langar mig að fá upplýsingar um það, hvernig verja á öllum þessum gjaldeyri. Það hlýtur að liggja fyrir einhver áætlun um þetta, en það getur vart veríð hægt að forsvara, að við alþm. fáum ekkert um þetta að vita. Nú hefur hæstv. atvmrh. fylgt úr hlaði ágætu frv. um byggingu sementsverksmiðju, og eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja um málið, getum við gjaldeyríslega grætt á einu ári það fé, sem til hennar færi, miðað við sementsinnflutninginn. Nú langar mig að spyrja hæstv. atvmrh. um það, hvað sé til fyrirstöðu að nota þann gjaldeyri, sem fyrir er lagður á nýbyggingarreikning, til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Það væri gott, ef hæstv. ráðh. vildi gefa hv. Nd. upplýsingar um þetta. Það er skylda ríkisstj. að gefa Alþ. upplýsingar um það, hvernig gjaldeyri þjóðarinnar er ráðstafað. Ef það er ekki hægt að spara þessar 8 millj., sem þarf í erlendum gjaldeyri til sementsverksmiðjunnar, hvað verður þá um þær 60 millj. kr., sem fyrir eiga að vera á nýbyggingarreikningi? Þó það sé alls ekki útilokað að taka erlent gjaldeyrislán til framdráttar jafngóðu máli og þetta er, þá er það óþarfa eyðsla á gjaldeyri og ber að forðast slík í lengstu fög, þótt ekki sé til annars en þess að spara vaxtagreiðslur.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði hér um sparnað og sagðist fyrir sitt leyti bera það traust til núv. hæstv. ríkisstj., að hann teldi nægilegt, að hér yrði aðeins um heimildarlög að ræða. Það getur nú verið allfrábrugðið og mismunandi traust, sem þm. bera til hinna ýmsu ríkisstj., sem með völdin fara. En hvað snertir framkvæmd mála hefur nú komið fyrir, að ríkisstj. hafi frestað framkvæmd þeirra, og jafnvel þó að um beina lagaskipun hafi verið að ræða. Það hefur ekki í öllu gengið vel að fá hæstv. ríkisstj. til þess að framkvæma l. um ýmsar framkvæmdir, sem samþykktar hafa verið. Nýlega hótaði formaður eins stjórnmálaflokksins að höfða mál á hendur ríkisstj. fyrir það, að hún brjóti sett lagafyrirmæli um framlög úr ríkissjóði, með því að neita að leggja þau fram. Það eru æði viðkvæmir blettir á hæstv. ríkisstj., þegar rætt er um lánveitingar. Hæstv. atvmrh. hefur kvartað yfir því hér í þessum umr., að erfitt sé að fá nauðsynlegan erlendan gjaldeyri til sementsverksmiðjunnar, Það kynni nú að vera svo, að hæstv. ríkisstj. sé hrædd við að knýja á dyr Landsbankans til þess að leggja þetta fé fram, og að hæstv. ríkisstj. kjósi heldur að flýja með þetta út fyrir pollinn og leita á náðir velviljaðra erlendra manna, sem skilning hefðu á málinu. Það sýnist svo, að hæstv. stj. þori ekki að kveða upp úr við bankastjóra Landsbankans, en þá er bankinn kominn langt út fyrir það hlutverk, sem hann var stofnaður til, ef ekki er hægt að fá þar nauðsynlegt fé til fyrirtækis sem sementsverksmiðjunnar.

Ég vona, að hæstv. ráðh. verði við þeim tilmælum að leggja fram á Alþ. skýrslu um það. hvernig ráðgert sé að verja gjaldeyri þjóðarinnar og hversu mikið gert sé ráð fyrir, að notað verði af gjaldeyristekjunum til nýrra framkvæmda.