19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

61. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get nú skilið það, að hv. 2. þm. Reykv. vildi gjarnan fá að sjá sem fyrst þá innflutnings- og fjárfestingaráætlun, sem fjárhagsráð vinnur að og hefur unnið að nú um skeið, og ég efast ekki um, að hann fái það fljótlega. Það hefur nú ekki verið fyllilega frá þessu gengið í einstökum atriðum fram til þessa, en mun mjög langt komið. Og undir eins og fjárhagsráð hefur gengið frá þessu þannig, að til fullnustu megi teljast, hygg ég, að þetta verði birt í þinginu ekki síður en annars staðar. Og ég hygg, að nú næstu daga eða jafnvel nú þegar sé búið að tilkynna fjvn. það. Ef ekki er búið að tilkynna þetta nú þegar í sambandi við afgreiðslu fjárl., mun það verða gert næstu daga, og hefur ríkisstj. gert ráðstafanir til þess, að það verði gert. En ég vona nú, að hv. þm. sýni ofurlitla biðlund, þó að gott hefði verið að þetta hefði legið fyrir nú þegar.

En þegar ég greindi frá því áðan, að ég gerði ekki ráð fyrir því, að sá erlendi gjaldeyrir, sem nota þyrfti til þessara framkvæmda, yrði tekinn fyrst um sinn af gjaldeyrisöflun hvers árs, þá byggði ég það á áætlun fjárhagsráðs. Og ég sannfærðist um það eftir viðtali við fjárhagsráð og athugun á skýrslum þess, að ekki muni vera unnt að leggja til þá upphæð, a.m.k. ekki á yfirstandandi ári, sem gert er ráð fyrir, að þyrfti til að reisa sementsverksmiðju. Hv. þm. var að óska eftir, að ég legði þessar áætlanir fram hér í þinginu. Ég hef þær ekki við höndina og tel ekki heldur mitt hlutverk né ríkisstj. að leggja þetta fram, heldur annarra. En ég efast ekki um. að þetta verði fljótlega gert.

Hv. þm. spurði um það, hvort það væri almenn fjármagnsvöntun til þessa fyrirtækis eða aðeins gjaldeyrisvöntun, sem ég miðaði við, þegar ég viðhafði þau orð, sem ég gerði. Ég er ekki enn þá farinn að leita fyrir mér um það fjármagn, sem a.m.k. væri sjálfsagt og eðlilegt, að tekið væri innanlands til þessara framkvæmda, og ekki um erlend lán heldur. En ég verð aðeins að segja það, að ég er ekki svo bjartsýnn, að ég sé alveg viss um, að það sé hægt að láta stökkva upp úr steinum í einum hvelli það innlenda fjármagn. sem áætlað er til þess innlenda kostnaðar af þessu verki, því að ég hef allt aðrar hugmyndir viðkomandi fjárþörf þjóðfélags en sumir hv. þm. virðast hafa. Því að ég álít, að það geti komið fyrir, að eitt þjóðfélag bresti fjármagn til þess, sem það þyrfti að gera, alveg eins og einstaklinga. Ég hef ekki trú á, að hægt sé að leysa allar þarfir þjóðfélags með því að setja seðlaveltu í gang. Það eru einhver takmörk fyrir því, þó að hv. 2. þm. Reykv. tali oft þannig, eins og þarna séu engin takmörk, sem komi til greina. Ég hef hins vegar gert mér von um, að unnt væri að fá kannske innanlands það fjármagn, sem þarf til innlendrar notkunar við að reisa þetta fyrirtæki. En eins og ég sagði þessum hv. þm. áðan, er það svo, að eftir þeim áætlunum, sem fjárhagsráð þegar hefur gengið frá um gjaldeyrisöflun og gjaldeyrismeðferð á þessu ári, hef ég enga von um, að það takist að fá þetta fé á einu til tveimur árum. — Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið, að það væri einkennilegt, að þjóðin gæti ekki aflað gjaldeyris af eigin framleiðslu til fyrirtækis, sem borgaði þann gjaldeyri á einu ári. Það má kannske segja það. En hv. þm. verður að athuga það, að þessi sementsverksmiðja er ekki farin að framleiða til að borga okkur þann erlenda gjaldeyri, sem til hennar þarf, undir eins og fyrsti hornsteinn hennar er lagður. Það hafa sagt mér kunnugir menn, sem um þetta mál hafa rætt, að það mundi líða a.m.k. eitt til tvö ár frá því að gerður væri samningur um smíði vélanna og þangað til líkur séu til þess, að þær séu tilbúnar til afhendingar. En það þarf sennilega að greiða þær, a.m.k. að nokkru leyti. um leið og samningur er gerður um þær. Þannig að þó að ákveðið væri að hefjast handa um byggingu þessarar verksmiðju í ár, eða eftir því sem ástæður leyfa, þá er ekki hægt að búast við, að hún sé tilbúin fyrr en tveimur til þremur árum þar á eftir, eins og afgreiðsla gengur um alla hluti nú í veröldinni. Og ef samningar eru gerðir um að koma þessu í framkvæmd, verður að hafa þetta fé handbært. Og einmitt á þeirri sannfæringu okkar, að þetta fyrirtæki beri sig fjárhagslega, byggjum við það allir, að áhættulaust sé að binda í því erlent fjármagn, ef annars er ekki kostur, vegna þess að það muni á fáum árum endurgreiða þann gjaldeyri, sem til þess þarf, með sparnaði í innflutningi.

Það er því alveg óhugsandi, eftir því sem ég bezt veit, þó að byrjað yrði á þessu verki í ár, að því verði lokið á næsta ári, eins og hv. þm. vill þó vera láta. Ég held, að hlutirnir gangi ekki svo hratt fyrir sig í heiminum nú, þó að fylgt sé eftir eins og mögulegt er. — Af þessum ástæðum er það nú, sem ég sagði þessi orð áðan, að ég byggi það á þeirri áætlun, sem gerð hefur verið um þessi efni og innan skamms mun liggja fyrir hv. 2. þm. Reykv. eins og öðrum hv. þm. Og vegna þessarar óvissu m.a. um lánsútvegun teldi ég óheppilegt að fyrirskipa ríkisstj. að framkvæma þetta verk á ákveðnum tíma, bæði vegna þess, að ekki er enn þá búið að sjá fyrir þeim erlenda gjaldeyri og því fjármagni, sem til þessa fyrirtækis fer, og við vitum ekki enn, hvort teknískir möguleikar eru til þess að afla véla og annars til fyrirtækisins á þeim tíma, þegar Alþ. þóknaðist að setja ríkisstj. fyrir um að setja fyrirtækið upp. Og þess vegna tel ég réttara, að frv. verði, eins og það liggur fyrir nú; heimildarlöggjöf til ríkisstj., en ekki sem bein fyrirskipun. Þann stutta tíma, sem ég er búinn að sitja í ráðherrasæti, er ég búinn að fá nóg af gömlum fyrirskipunum um þetta og hitt frá undanförnum árum, sem nú er komið til, að átt hefði að framkvæma, en hefur vantað til ýmissa hluta af því afl þeirra hluta, sem gera skal, þó að hv. 2. þm. Reykv. vilji ekki taka slíkt alvarlega. Og ég verð að segja það, eftir þeim framkvæmdum, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að lægju fyrir ákvarðanir um frá Alþ., að þótt þær heyri ekki undir mitt ráðuneyti, þá vil ég óska, að þetta frv. verði samþ. í heimildarformi. En það er ætlun mín að framkvæma þetta fyrirtæki svo fljótt sem nokkur tök eru á, því að ég álít, að hér sé um fyrirtæki að ræða, sem liggi einna mest á að koma í framkvæmd af þeirri áætlun, sem gerð hefur verið um mál.

Ég get ekki svarað þessum fyrirspurnum hv. þm. ýtarlegar en ég hef gert. Áætlunina hef ég ekki í höndum nú, en hún mun koma fram fljótlega.