20.02.1948
Neðri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

61. mál, sementsverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er hissa á því, að hv. 4. þm. Reykv. skuli fara í grafgötur með það, að það er erfitt að treysta því, að hæstv. ríkisstj. framkvæmi lög. Það hefur sýnt sig, að ríkisstj. hefur ekki framkvæmt lög, sem heimiluðu henni að skylda Landsbankann til þess að lána fé til framkvæmda. Í frv. nýbyggingarráðs var sú skylda lögð á Landsbankann, en þegar frv. kom frá n., þá var dregið úr þeirri skyldu, og svo gerir ríkisstj. ekki neitt. Það þýðir ekkert að segja: Það er nóg að gefa ríkisstj. heimild til þess að ráðast í framkvæmdir, því að við þekkjum hæstv. ríkisstj. og Landsbankavaldið. Ef við viljum hjálpa hæstv. atvmrh., sem ég efast ekki um, að vill málinu vel, til þess að koma málinu í gegn, þá verðum við að leggja skyldur á ríkisstj. Með því að samþykkja till. hv. þm. Siglf. gefum við ríkisstj. sterkari aðstöðu gagnvart einræðisherrunum í Landsbankanum, sem ráðherrarnir þurfa að knékrjúpa dag eftir dag til þess að fá lán til nauðsynlegra framkvæmda. Þeir þm., sem vilja, að málið nái fram að ganga og verði ekki að ónýtu pappírsgagni í ruslakistu ríkisstj., þeir samþykkja því brtt. hv. þm. Siglf.

Það er misskilningur hjá hæstv. atvmrh., að nýbyggingarráð hafi áætlað 50 milljónir til landbúnaðarins eins. Í þeirri upphæð voru einnig raforkumál og fleira. — Viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni, þá var hæstv. atvmrh. sjálfur í nefnd til þess að gera till. um málið, og skilaði sú n. áliti haustið 1946, eða um það leyti sem fyrrv. ríkisstj. fór frá, en n. var ekki ákveðnari en svo, að hún lagði enga áherzlu á, að áburðarverksmiðjan yrði reist. Og vil ég vekja athygli á því, að þó að nýbyggingarráð veitti ekki fé til áburðarverksmiðju, þá studdi það íslenzkan landbúnað með því að veita fjárframlög til ullarverksmiðju, sem á að margfalda ullariðnað landsmanna.

Hæstv. ráðh. minntist og á gjaldeyrisvandræði okkar vegna aðgerða nýbyggingarráðs. Ég vil minna á það, að gjaldeyrisvandræðin eru ekki vegna ráðstöfunar nýbyggingarráðs á þeim 300 millj., sem það fékk, því að margt af því, sem ráðið stóð fyrir, að keypt væri, hefur nú borgað sig gjaldeyrislega. En ég er hvenær sem er reiðubúinn að ræða gerðir nýbyggingarráðs og skal útvega hæstv. ráðh. skýrslu yfir gjaldeyriseyðslu og framkvæmdir ráðsins, ef hann vill.

Þá var hæstv. ráðh. að bera saman starf nýbyggingarráðs og fjárhagsráðs. Það er allt annar hlutur, sem fjárhagsráð hefur tekið að sér. og það getur byggt á því starfi, sem nýbyggingarráð var búið að vinna. Að minnsta kosti ætti hæstv. ríkisstj. ekki að vera ókunnugt um reynslu nýbyggingarráðs, þar sem hæstv. fjmrh. átti sæti í ráðinu. En við í nýbyggingarráði unnum það, sem við tókum að okkur að gera. Eins og þau verk nú sýna, sem fjárhagsráð lætur frá sér fara, þá eru þær fáu áætlanir og skýrslur, sem það gefur út, fyrir neðan allar hellur.