27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

61. mál, sementsverksmiðja

Áki Jakobsson:

Út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. vil ég segja, að afstaða hans í þessu máli er svipuð og í öðrum málum og ákvarðast af óskum ríkisstj. Atvmrh. hefur óskað, að málið sé afgreitt sem heimild, og þannig verður það bara ný viðbót við þær mörgu heimildir, sem stj. tekur ekki alvarlega. Í stað framkvæmda koma viðbárur um, að peningar séu ekki til, þótt þjóðin sé efnaðri nú en nokkru sinni áður.

Ég skal ekki lengja umr. mikið. Málið var mikið rætt við 2. umr., og hæstv. atvmrh. hefur kvartað undan því, að við höfum tafið það. Ég vil bara vona það, að hann vinni upp þá tvo daga, sem talið er, að við höfum tafið málið með umr.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að tilgangslaust væri að berjast fyrir þeirri till., sem ég flyt, af því að enginn væri á múti málinu enn sem komið er. Hann gleymdi ekki að bæta því við. Ég get sagt hv. 4. þm. Reykv. að það eru margir á móti þessu máli. Þó að hæstv. atvmrh. vilji, trúi ég ekki, að hann komi málinn fram, ef hann afþakkar ákveðna viljayfirlýsingu Alþ. Ég veit, að ráðamenn í fjármálum okkar, húsbændur hæstv. ríkisstj., eru á móti málinu, og spádómur minn byggist á þeirri reynslu, sem ég hef verið áhorfandi að í tíð núv. stj. Málið er ekki ákafamál hjá hæstv. ríkisstj. og ekki hjá hæstv fjmrh. Þess vegna er ekki mikið lagt upp úr stuðningi Alþ.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ef til þess kæmi. að lagzt yrði á málið, þá væri hægt að leggja út í orrustu. Því miður verður efalaust tækifæri til þess, því að þess er ekki að vænta, að málinu verði hrundið í framkvæmd. Það verður fróðlegt að vita, hvort hv. 4. þm. Reykv. hefur þá ekki fundið nýjar ástæður fyrir því, að Alþ. láti ekki í ljós vilja sinn. Það mætti segja mér, að hann verði þá búinn að finna ný rök!

Hér er um þjóðþrifafyrirtæki að ræða og byrjun á stóriðnaði, sem við höfum ekki áður haft. Það eru ekki til nein rök gegn málinu. Ef við getum klofið þau kaup, sem gera þarf erlendis, getum við líka haft ráð á því innlenda efni og þeirri vinnu, sem til þarf. Ég tek því upp aftur till. mína á þskj. 366.