27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

61. mál, sementsverksmiðja

Pétur Ottesen:

Hv. 4. þm. Reykv. vill viðurkenna, að aths. mín við þessa brtt. sé skynsamleg og á rökum reist. Mér finnst það því harla mikið ósamræmi að vilja samt skella skolleyrunum við bendingum mínum og halda till. til streitu óbreyttri, en þannig skildi ég hv. þm Mér er ákaflega vel ljóst, að þessi till. út af fyrir sig er ekki alvarleg. Þó að svo ólíklega kynni að vilja til, að þessir tveir hreppar kæmu sér ekki saman um skiptinguna, þá er settur ákveðinn yfirdómstóll til að skera úr þeirri þrætu. Ég er því ekkert að óttast, að eitthvað kunni að fara illa í skiptum þessara tveggja hreppa, heldur virðist mér vera hér lagður grundvöllur, sem ásókn gæti verið um að komast inn á með þá almennu útsvarslöggjöf. Nú liggur fyrir þinginu frv. um allvíðtæka breyt. á útsvarslöggjöfinni. og er því meiri ástæða til að leggja hér ekki þann grundvöll, sem ekki yrði fullt samkomulag um í þeirri almennu löggjöf. Ég mun þess vegna leyfa mér að bera fram brtt. um það, að þetta ákvæði brtt. verði fellt niður, af þeim ástæðum, sem ég nú hef bent á. Hins vegar mun ég ekki bera fram brtt. við þetta, ef frsm. fyrir hönd n. vill taka þessa brtt. aftur, sem ekki er annars kostur nú, þar sem málið er til 3. umr. Þetta væri þá til athugunar fyrir n., hvort ekki væri hægt að ná þessu, sem hér er farið fram á, með öðrum hætti í Ed., sem ekki skapar fordæmi í þeirri löggjöf um þetta efni. Þó að ég beri fram brtt., mun ég heyra svör frsm. fyrst um, hvort hann geti fallizt á að taka brtt. aftur á þessu stigi málsins, og að þeim svörum fengnum mun ég taka mínar ákvarðanir í sambandi við þetta.