27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

61. mál, sementsverksmiðja

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. komst þannig að orði, að ég gat ekki annað en staðið upp. Hann sagði, að Landsbankinn hefði oft beitt valdi sínu gálauslega. Ég skora á hv. þm að nefna l., sem Landsbankinn hefur beitt valdi sínu gálauslega við. Það hafa aðrir heyrt þessi ummæli frá fulltrúa þessa hv. flokks, Alþfl., og ég skora á hv. þm. að nefna, hvaða l. það eru, sem þingið setur, sem eru gálausleg að áliti Alþfl. Svona tal undir rós er aumingjaskapur, sem hv. þm. á ekki að leyfa sér. Ég hef heyrt ýmsa ofstækisfulla menn í landinu halda því fram, að ýmis lagafyrirmæli, sem sett hafa verið undanfarin ár, væru illa hugsuð eða óheppileg. En það væri fróðlegt að heyra frá hv. 4. þm. Reykv.. hvaða l. það eru, sem Alþfl. telur gálauslega sett og að Landsbankinn eða hæstv. stjórn hafi getað stöðvað framkvæmdir á. Ég vænti þess, að hann sýni manndóm, hv. 4. þm. Reykv., og svari þessari fyrirspurn minni.

Þá gat hv. þm. þess, að engin hugsun fylgdi málinu, því að það lægi engin till. fyrir til að tryggja nægan gjaldeyri til framkvæmdarinnar. Ég sk.il ekki hvaða hugsanagangur þetta er. Skyldi hv. 4. þm. Reykv. halda, að ráðh. skilji það ekki, að þegar þingið leggur fyrir þá að gera einhverja hluti, þá þurfi að afla peninga til að gera þá? Það, sem þingið gerir með því að samþykkja till., sem ég hef lagt fram, er að leggja fyrir hæstv. ríkisstj. að beita valdi sínu við þær stofnanir þjóðarinnar, sem undir hana heyra, til þess að koma málinu fram. Og stj. er meiri styrkur í því að geta beitt þessu valdi, ef hún hefur fengið þetta sem ákveðin fyrirmæli frá þinginu, heldur en í heimildarformi, sérstaklega eins og nú standa sakir, þegar heimildirnar liggja og ekkert er gert og búið er að sitja við það í marga mánuði, að peningastofnanir landsins hafa skellt skolleyrunum við því að láta fé til þeirra framkvæmda, sem ríkisstj. sjálf hefur ekki áhuga fyrir að koma í framkvæmd.

Mér fannst ræða þessa hv. þm. hafa hvorki upphaf né endi.

Varðandi það, sem hv. þm. Borgf. sagði, um að það gæti skapað fordæmi að láta vera skylt að greiða útsvar þar, sem sandur og möl eru tekin, þá vil ég svara hv. þm. því, að það getur ekki skapað neitt fordæmi. Ég held hann hefði átt að reyna að hlusta eftir því, sem hann var spurður um, og svara því, en ekki að stofna til deilu við mig um þetta mál.

Ég lofaði hæstv. atvmrh., að ég skyldi ekki tefja málið, og vænti þess, að hann með dugnaði sínum vinni upp þessa tvo daga, sem það hefur tafizt.