16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., hélt iðnn. fund um þetta mál og ræddi um frv. við þann mann, sem mest hefur unnið að því að gera áætlanir um þessa sementsverksmiðju, Harald Ásgeirsson verkfræðing. Og að þeim umr. loknum var n. sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ.

Frv. þetta er um að veita ríkisstj. heimild til þess að láta reisa sementsverksmiðju við Önundarfjörð. Það hefur legið fyrir þinginu allýtarleg grg. frá þeim manni, sem hefur undirbúið þetta mál, sem ríkisstj. hefur svo að mestu leyti gert að sinni grg. fyrir frv., og þarf í raun og veru ekki neinu við hana að bæta. Það hefur verið rannsökuð aðstaða á fleiri stöðum á landinu til að reisa sementsverksmiðju, og hafa á ýmsum tímum verið uppi raddir um aðra staði, sem hafa þótt heppilegri, og jafnvel líka stundum um annað fyrirkomulag að ýmsu leyti. En þetta, sem í frv. er gert ráð fyrir í þessu efni. er nú það, sem menn hafa seinast hafnað á sem hinu ódýrasta og hagkvæmasta í þessu efni.

Ég geri ráð fyrir, að mönnum sé yfirleitt ljóst, að okkur. er þörf á því að framleiða sement okkar sjálfir, ekki sízt þegar gjaldeyrisástæður eru hjá okkur eins og þeim er nú komið. En vafalaust munu margir eiga erfitt með að átta sig á því, hvort sementsverksmiðja, sem stofnuð væri eftir þeim plönum, sem hér liggja fyrir, muni bera sig. En eftir því sem fagmenn álíta, þá á hún að gera það.

Þetta frv. er, sem sagt, um heimild handa ríkisstj. til að reisa þessa verksmiðju, og framkvæmdin byggist á því, hvort ríkisstj. heppnast að fá lán til þess að koma verksmiðjunni upp. Því að því fer fjarri, að fjárhag ríkisins sé þannig farið nú, að ríkið geti, án þess að fá lán, lagt þetta fé fram, sem þörf til þess að reisa þessa verksmiðju. — En trúlega þarf þetta mál að koma til þingsins kasta aftur, áður en endanlega er gengið frá því að ákveða byggingu þessarar verksmiðju. Hins vegar sér iðnn. ekkert athugavert við það, þó að ríkisstj. fái þessa heimild í hendur, svo að reynt verði að fara að vinna að málinn, svo sem að reyna að fá lánið, og svo á síðara stigi — sjálfsagt ekki fyrr en á næsta ári eða hitt árið — að reisa verksmiðjuna.

Ég hef ekki séð álit frá hv. minni hl. iðnn., enda hygg ég, að sá minni hl. n., sem þar kemur til greina, sé ekki svo mikið ósammála okkur hinum nm., þó að minni hl. n. kunni að vera með sérstöðu.