16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er ekki mikið, sem ég þarf að segja. Hæstv. atvmrh. hefur svarað hv. þm. Barð. flestu því, sem ég vildi hafa svarað honum.

Ég vil byrja á því að lýsa fylgi mínu við frv., en sjálfur hefði ég kosið, að tvennt hefði átt sér stað áður en frv. kom fram. Í fyrsta lagi, að leitað hefði verið fyrir um kaup á landi því, sem verksmiðjunni er fyrirhugað að standa á, en það mun verða í Hólslandi, Garðalandi eða Holtslandi, og hefðu átt að liggja fyrir upplýsingar um verð á þessu landi, því að venjulega er það svo, að þegar ríkissjóður þarf að kaupa land til einhverra hluta, þá er verðið svo vitleysislega hátt, að það nær engri átt.

Í öðru lagi finnst mér ekki liggja fyrir nógu góðar upplýsingar um sandinn. Það mun vera svo, að jarðir eiga út frá landi sínu 60 faðma í sjó fram. Ég veit til þess, að í Önundarfirði dagar iðulega uppi grásleppu á fjörunni, og eru það óskráð lög þar og siður, að hún sé almenningseign. Ég held því, að það, sem hv. þm. Barð. sagði um það, að í Patreksfirði ætti ríkið sand, en í Önundarfirði engan, hafi ekki við rök að styðjast, og finnst mér, eins og ég sagði áðan, ekki nógu glöggar upplýsingar um sandinn í nál.

Þá vil ég benda hæstv. ríkisstj. á það, hvort ekki væri rétt, að hún bætti inn í frv. ákvæðum um endurskoðun á reikningum verksmiðjunnar, en þá endurskoðun ættu að hafa á hendi sérstakir menn, sem endurskoðuðu alla ríkisreikninga, og mundi það vera betra en að vera alltaf að kjósa marga endurskoðendur, sem borga þarf svo hátt kaup hverjum og einum.

Þetta, sem ég hef nú minnzt á, finnst mér vanta í frv., en ég læt það þó ekki hafa áhrif á fylgi mitt við það. Og eftir að hafa heyrt röksemdir hv. þm. Barð. fyrir því, að Patreksfjörður sé betri staður fyrir sementsverksmiðju en Önundarfjörður, þá er ég sannfærðari en nokkru sinni fyrr um hið gagnstæða. Í Önundarfirði er nægur sandur, og má dæla honum beint úr firðinum inn í verksmiðjuna, þar sem efnin eru unnin úr honum með kvoðuþvotti eða segulmagni. Þótt nægur sandur sé fyrir hendi við Patreksfjörð, þá vantar í hann efni, og þyrfti til viðbótar við hann kísilrík steinefni.

Þá hafa sumir viljað halda því fram, að hafnarskilyrði væru betri við Patreksfjörð. Það er alls ekki tilfellið þeim megin, sem sandurinn er. Vafamál er og, hvort menn vildu hafa sementsverksmiðju þarna, þar sem sementsryk yrði mikið í nánd við verksmiðjuna og mundi það setjast á fiskinn. Í Önundarfirði yrði verksmiðjan alltaf 3 km frá þorpinu, svo að það ætti ekki að koma að sök þar. Á Patreksfirði er raforka mjög af skornum skammti, og sama er að segja um vatnið. Því verður ekki neitað, að á Patreksfirði er ekki eins snjóþungt og í Önundarfirði, en þar sem sandinum yrði þar dælt úr sjó, kæmi það ekki að sök. Þakið á byggingunni mætti kannske vera heldur veikara og veigaminna, ef hún væri á Patreksfirði! — Hvað snertir virkjun, þá eru skilyrði fyrir henni betri í Vatnsfirði, þar sem nota mætti vatnsafl, heldur en í Önundarfirði, þar sem gert er ráð fyrir, að verksmiðjunni verði séð fyrir rafmagni með diesel-orkuveri. Ekki er þó langt síðan ég heyrði hv. þm. Barð. halda því fram, að virkjunarskilyrði væru miklum mun betri við Dynjanda en í Vatnsfirði. Ég hygg, að það atriði, hvaðan verksmiðjan fær raforku, sé ekki afgerandi, og ég minnist þess, að hv. þm. Barð. óx raforkuspursmálið ekki í augum, þegar rætt var um vinnslu úr stálfjallinu við Patreksfjörð.

Rök þessa hv. þm. hafa öll hnigið að því að sannfæra mig um, enn betur en grg., að Önundarfjörður sé einmitt bezti staðurinn fyrir sementsverksmiðju, og þar eigi hún að vera og hvergi annars staðar.

Ég veit, að form. n. lætur ekki bíða að boða til fundar í n.umr. lokinni, svo að ekki þarf það að tefja fyrir málinu, og þá geta sjónarmið allra nm. komið fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín fleiri, en eins og ég hef áður sagt, vildi ég, að kaup á stað fyrir verksmiðjuna væru tryggð áður en framkvæmdir verða hafnar. Sem betur fer er þetta ekki alveg bundið við neinn einn stað, þar sem um er að ræða 3 jarðir, sem hlut eiga að máli.

Ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt, þótt vera kunni, að á því finnist einhverjir smágallar milli umr., en ég er þó ekki trúaður á það.