16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

61. mál, sementsverksmiðja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. atvmrh. fyrir upplýsingar þær, sem hann hefur gefið varðandi mál þetta.

Ég vil, áður en ég held lengra í ræðu minni, reyna að fyrirbyggja þann misskilning, sem mér virðist koma fram hjá hæstv. ráðh., að ég væri að fjandskapast við málið. Ég gerðist aðeins svo djarfur að leyfa mér að benda á það, sem mér virtust veilur í málinu, en þær ábendingar mínar gáfu ekki tilefni til þeirra fullyrðinga, að ég vildi láta verksmiðjuna vera á Patreksfirði og hvergi annars staðar. Ég verð að segja, að ég skil ekki í þessu sálarástandi hæstv. ráðh. að halda það, að ég vilji endilega setja hana niður á Patreksfirði. Ég benti aðeins á, að í l. ætti ekki að vera nein staðsetning, og er það stórkostlegt fjárhagslegt atriði. og viðurkenndi frsm. það einnig. Og mér skildist á hæstv. ráðh., að það væri heldur ekkert atriði fyrir hann, hvort staðurinn væri ákveðinn. (Atvmrh.: Það er heldur ekkert atriði fyrir mig). Jæja. það kann þá að vera, að ég geti fallizt á frv. — Ég held, að mönnum hljóti að vera það ljóst, að það er mikill skaði skeður, ef til þess kæmi, að verksmiðjan yrði sett þar, sem skilyrði eru ekki hin beztu, og þess vegna er full ástæða til þess að athuga sinn gang rækilega áður en nokkuð er ákveðið, hvar hún eigi að vera.

Ég mun fallast á þá málsmeðferð, sem stungið var upp á hér áðan, og bera brtt. mínar fram milli 2. og 3. umr., en höfuðefni þeirra mun vera það, að verksmiðjan verði ekki staðsett í lögunum.

Hæstv. ráðh. er kunnugt um það, að mistök hafa orðið varðandi val á stöðum fyrir mannvirki, og á ég þar við Skeiðsár- og Andakílsárvirkjunina, en þetta hefur orðið dýrara en það þurfti að vera af þeim sökum. Á árunum 1943 og 1944 var ákveðið að leggja út í að koma upp raforkuveri við Dynjanda. Ágætur verkfræðingur hafði rannsakað öll skilyrði nákvæmlega og skrifað ýtarlega bók um málið, og hafði hann margfalt meiri reynslu en þessi ungi maður, sem hér er um að ræða. Ég er þó ekki með þessu að reyna að kasta neinni rýrð á hann. Það var ákveðið að fara út í virkjun Dynjanda, sem átti að kosta 12 millj. kr., og binda hreppana til að taka ákvarðanir í málinu. Þegar kom til okkar kasta, krafðist ég þess ásamt hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ), að málið væri rannsakað nánar, svo að ugglaust væri, að ekki væri þar flanað að neinu. Og hvað kom á daginn? Niðurstöður allar á þá lund, að ef þetta væri rétt, þá væri hitt rétt, og ef þetta væri vitlaust, þá væri hitt vitlaust! Ég hef nú lesið niður í kjölinn skjöl og grg. þessa máls, og þar hefur komið fram það sama og við Dynjanda, að ef þetta er rétt, þá er hitt rétt ! Ég ræddi líka þessi gögn mjög gaumgæfilega við Harald Ásgeirsson og meðal annars þessi sérfræðilegu atriði, sem hæstv. ráðh. minntist á. En mundi hæstv. ráðh. treysta sér til að velja svo hlutdrægan dómara og þann, sem hér er um að ræða, í þýðingarmiklu máli? Ég veit ekki betur en ef um það er að ræða að fá rétt mat eða dóm, þá sé reynt að fá til þess óvilhalla menn. Og það er engin lítilsvirðing við Harald Ásgeirsson, sem ég hef rætt nákvæmlega við, þótt leitazt sé við að athuga málið sjálft, og ástæðulaust að vera með þess konar fleipur. Rannsóknir leiddu til þess, að nýr verkfræðingur var fenginn til að athuga Dynjanda, og það fór svo, að hinar fyrri niðurstöður reyndust rangar og í stað 12 millj. kr. kostnaðar var hann nú áætlaður a.m.k. 30 millj. Og enn fremur reyndist vafasamt, hvort hægt yrði að starfrækja stöðina, og fyrir það var hætt við að reisa hana, sem betur fór að mínu áliti, og síðan hefur ekkert verið gert til þess að tryggja Vesturlandi neitt rafmagn, og raforkumálastjóri telur nú, að ekki sé hægt að virkja Dynjanda og telur Vatnsfjarðará heppilegri. Þannig fór nú enn um þetta, þegar málin voru rannsökuð. Og það hefði máske ekki heldur grafizt eins undan aðalleiðslunni við Skeiðsfossvirkjunina, ef allt hefði verið rannsakað nógu vel í upphafi. Og hvað rannsókn þessa máls snertir, þá hefur það ekki verið hrakið, að þær eru miklar veilur, sem mennirnir benda sjálfir á af vísindalegri samvizkusemi. en hæstv. ráðh. vill ekki líta á af pólitískum hroka. Það virðist ekki hvíla á honum með miklum ábyrgðarþunga, þótt frv. yrði samþ. án þess að hin þýðingarmestu atriði séu rannsökuð til hlítar. Ég tel, að það sé mikilsvert, að áður en lengra er haldið, sé það ekki ákveðið í l., hvar verksmiðjan skuli standa. Ráðh. hefur þá allt aðra aðstöðu til úrskurðar síðar en hann mundi hafa, ef búið væri að staðsetja verksmiðjuna. Hæstv. atvmrh. taldi, að það hefði verið betra að tryggja sér landið áður en frv. hefði verið borið fram. En ef farið væri eftir minni till., væri eins opin leið að semja, þegar komizt hefur verið að niðurstöðu með staðinn. Sú fullyrðing, að ég hafi borið fram till. um, að verksmiðjan yrði á Patreksfirði, er fjarstæða, og ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. gengur til. Það væri engu betra en ef verksmiðjan væri nú staðsett á Önundarfirði, og slíka till. mundi ég ekki bera fram á þessu stigi málsins. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. viðurkennt, að þar sé kostur á nærtæku rafmagni, og ég hef sýnt fram á, að e.t.v. kæmi í ljós, að Vatnsfjörður sé heppilegasti staðurinn að öllu leyti, einkum vegna vatnsafls, sem er mjög nærtækt. Aðalatriðið er þó það, hvar bezt er að fá efni, og það liggja ekki fyrir nægilega róttækar rannsóknir á því enn. Það er jafnvel tekið fram í nál., að þessar rannsóknir séu þannig, að ekki sé hægt að byggja á þeim lokaúrskurð um bezta staðinn, og alls staðar sagt, að ef það tekst að gera þetta eða hitt, þá geti annað gengið. Vill nú hæstv. ráðh. bera ábyrgð á því, að slíkt staðarákvæði verði sett inn án undangenginnar rannsóknar, sem nauðsynleg er?

Ég vil taka það fram út af ummælum hæstv. ráðh. um 2. gr., að ég hef persónulega ekkert á móti erlendu gjaldeyrisláni og tel, að það eigi að vera á valdi ráðh. að taka það og meta lánskjör — og ekkert lakara í erlendri mynt en íslenzkri, ekki sízt þegar um er að ræða framkvæmdir, sem koma til með að spara 8 millj. kr. í erlendum gjaldeyri árlega.

Hins saknaði ég, að hæstv ráðh. reyndi ekkert til að hrekja það, sem ég sagði, að ekki ætti að staðsetja verksmiðjuna án ýtarlegrar rannsóknar. Heldur ekki önnur atriði, t.d. brtt., sem ég sagðist mundi gera við 7. gr. Og þætti mér gott, ef hæstv. ráðh. vildi skýra frá afstöðu sinni til þeirra atriða, sem hann fór hjá að minnast á.

Af ræðu hv. frsm. skildi ég ekki mikið. Hann fullyrti hér, að eini staðurinn, þar sem sandur væri til án þess að bæta þyrfti í hann efnum, væri við Önundarfjörð. En hann hefur þá bara ekki lesið grg., því að það stendur hér skýrt, að sandinn í Vatnsfirði þurfi aðeins að hreinsa, og er jafnvel kveðið fastar þar að orði en um sandinn í Önundarfirði. Hann kallar þetta kannske ekki rök. Hins vegar viðurkenndi hann það, að það væri alveg nauðsynlegt að tryggja löndin áður en ákveðið væri til fulls um staðinn, og því geti hann verið með mér í því að fella burtu staðarákvörðunina um Önundarfjörð. Í Tálknafirði er líka talinn nógu góður sandur. Annars skal ég ekki leggja neinn dóm á það, hvar heppilegast er að reisa verksmiðjuna, en ég vil bara láta rannsaka þetta og sé ekki, að það tefji málið nokkurn skapaðan hlut, þó að sá tími, sem fer í að undirbúa þetta tæknilega og afla lánsfjár, sé jafnframt notaður til þess að rannsaka til fulls, hvar heppilegast sé, að verksmiðjan standi, og það hlýtur þá að vaka eitthvað sérstakt fyrir þeim, sem ekki geta fallizt á þetta.

Í sambandi við sjálfan sandinn skal ég ekkert segja um það, hvort tryggara sé að byggja á sandi úr sjó, eins og í Önundarfirði, Tálknafirði og Vatnsfirði, eða á sandi úr landi. En væri það tryggara, þá er allt fjallið sunnan Patreksfjarðar tómur sandur — og fjall, sem ríkið á. Ég skal hins vegar engan dóm á það leggja, hvort betra er.

Ég hefði talið æskilegt og tel, að það þurfi ekki að tefja málið, að n. kynnti sér enn betur öll gögn í málinu. En hins vegar teldi ég minni ástæðu til þess, ef fallizt yrði á að fella burtu staðsetninguna. Eins er sjálfsagt, að viðkomandi ráðh. kynni sér þau gögn til hlítar. — Mun ég svo ekki lengja umræður frekar, nema sérstakt tilefni gefist til þess.