18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta mál er rétt á takmörkunum með að vera tilbúið til umr. N. hefur rætt málið síðan það var hér síðast á dagskrá og hefur þó ekki haldið um það fund síðan samkomulag var að nást innan n. um það. En ég var hér með brtt., sem ég veit ekki annað en að hv. nm. sætti sig yfirleitt við, og brtt. er þess vegna skrifleg, sem ég legg hér fram.

Það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, er það, að í n. varð ágreiningur um, hvort það skyldi ákveðið í frv., að verksmiðjan yrði byggð við Önundarfjörð eða ekki. Við, sem töldum, að eins og komið væri, þá væri rétt að hafa þetta eins og er í frv., höfum til samkomulags fallizt á að taka þessa staðarákvörðun úr frv., og er 1. brtt. meiri hl. iðnn. því um það, að orðin „við Önundarfjörð“ í 1. gr. frv. falli burt. Ástæðan fyrir því, að við gerum þetta, er sú, að þó að við teljum, að það sé þegar sýnt af þeim athugunum, sem gerðar hafa verið, að Önundarfjörður sé heppilegasti staðurinn til þess að reisa verksmiðjuna við, þá beygjum við okkur fyrir því, að það geti verið betra að ná kaupum á þeim eyðijörðum, sem þarna þarf að kaupa, ef það er ekki staðsett í frv., hvar verksmiðjan skuli reist, því að ætti að skrúfa verðið þarna óskaplega upp, er hugsanlegt, að það gæti orðið það mikið, að það vegi upp á móti þeim mismun, sem flestir telja, að meiri ávinningur sé að með því að reisa verksmiðjuna við Önundarfjörð en annars staðar. Ég tel það ekki heldur fullrannsakað, hvort ríkið fær aðstöðu til að taka sand til þessarar framleiðslu án þess að greiða fyrir hann sérstakt gjald, en það tel ég, að þyrfti að athuga, áður en ráðizt er í fyrirtækið, hvort hann verður skoðaður sem almenningseign eða ekki, og yfirleitt þarf að rannsaka nánar eignarréttinn á sandinum. Það mál er mér ekki fullljóst, eins og það liggur fyrir, þannig að ég geti á það fallizt. En ef þessi brtt. um að fella niður staðsetningu verksmiðjunnar úr 1. gr. verður samþ., verður að breyta 4. gr., og hef ég leyft mér að bera fram brtt. um, að gr. verði svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn sementsverksmiðjunnar skal skipuð 3 mönnum, er atvmrh. skipar til 4 ára í senn. Fyrsta verksmiðjustjórnin ákveður í samráði við atvmrh., hvar verksmiðjan skuli staðsett. Verksmiðjustjórn hefur á hendi yfirstjórn verksmiðjunnar. Atvmrh. setur henni erindisbréf og ákveður laun hennar.“ Það er m.ö.o. lagt í vald ráðh. og fyrstu verksmiðjustjórnar að ákveða, hvar verksmiðjan skuli reist, þó að undangenginni frekari rannsókn, sem frá mínu sjónarmiði á að beinast að því, hver hafi eignarréttinn yfir sandinum við Önundarfjörð og hvaða rétt ríkið hafi til að nota hann án sérstaks afgjalds.