18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

61. mál, sementsverksmiðja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að lýsa yfir því, að það hefur ekki verið rætt við mig um þessa seinustu brtt., og get ég ekki sætt mig við hana eins og hún er sett fram. — Það, sem hefur orðið samkomulag um milli mín og hæstv. atvmrh., var það, að ég frestaði að bera fram brtt. eða gefa út nál., þar til séð yrði, hvort samkomulag yrði um það, að 1. gr. yrði breytt þannig, að orðin „við Önundarfjörð“ mættu falla burt, og að engar aðrar breyt. yrðu gerðar á frv. Hæstv. ráðh. kvaðst mundu láta mig vita í dag, hvort gengið yrði að þessu, og ef það yrði ekki gert, lýsti hann yfir því við mig, að hann mundi leggja til, að málið yrði tekið af dagskrá, til þess að mér yrði gefinn tími til að gefa út nál. og bera fram brtt. mínar. Þess vegna vænti ég þess, ef ekki er samkomulag um það, að 2. brtt. falli niður og aðeins þessi eina hreyt. gerð á frv., þá uppfylli hæstv. ráðh. þessi loforð, sem hann gaf mér, og taki málið af dagskrá, svo að ég geti komið fram með mínar víðtæku brtt. við frv. Ég er alls ekki sammála síðari brtt., og verði hún samþ., hefur ekkert annað gerzt í málinu en það, að í staðinn fyrir, að Alþ. ákveði með l., hvaða staður verði valinn fyrir verksmiðjuna, þá sé ráðh. falið að gera það upp á sitt eindæmi, og getur hann kannske gert það daginn eftir að l. hafa verið staðfest, en slíkt er ekkert annað en skollaleikur.

Það, sem fyrir mér vakir, er, að málið verði rannsakað miklu betur. Vil ég t.d. benda hv. d. á, að þetta stórmál upp á 15 millj. kr. hefur aldrei verið sent til umsagnar rannsóknaráðs ríkisins. Það hafa að vísu 2 starfsmenn við atvinnudeild háskólans unnið við þetta mál, en ég hef það beint frá formanni rannsóknaráðs, að það hefur aldrei verið leitað umsagnar hans í þessu stóra máli. Er mér kunnugt um, að ráðið telur það mjög vafasamt, hvort hægt er að gera þá hreinsun á sandinum eins og lagt er til í frv. Og hugsið ykkur, hv. dm., ef það kæmi nú upp úr kafinu, þegar búið væri að reisa verksmiðju á þessum stað, að þetta væri ekki hægt og síðan yrði að flytja sand til verksmiðjunnar úr óra fjarlægð, af því að verksmiðjan hefði verið reist á röngum stað! Þess vegna er það till. mín, eins og ég hef sagt við hæstv. ráðh., að það verði aðeins breytt 1. gr., en hitt verði látið standa opið. Það þarf að útvega lán til fyrirtækisins, og það verður sjálfsagt ekki búið að tryggja 15 millj. kr. lán, eftir því sem hæstv. fjmrh. hefur upplýst, áður en þ. kemur saman næst.

Þá vil ég benda á, að í 4. gr. frv. nú er gert ráð fyrir, að atvmrh. einn skipi alla verksmiðjustjórnina og síðan er lagt til, að hún staðsetji verksmiðjuna. Þetta get ég ekki gengið inn á og vænti þess, að hæstv. atvmrh. sjái sér annaðhvort fært, að málið nái fram að ganga eins og ég hef óskað eða að það gerði tekið af dagskrá og mér gefið tækifæri til að leggja fram nál. mitt og brtt.