18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal staðfesta það, sem komið hefur fram hér í umr., að þótt till. sé talin frá n., samdi ég hana einn og vissi ekki um það samkomulag, sem orðið var, fyrr en ég var að koma á þennan fund og var síðan beðinn að bera fram brtt. um það, en um leið er byrjað á að greiða atkvæði. Ég sá strax, að ekki var h ægt að komast hjá því að setja ákvæði um það, hver skuli ráða því, hvar verksmiðjan eigi að vera, og fannst mér eðlilegt að setja það inn í 4. gr. og gera þá breyt. í samræmi við það að fella orðin „við Önundarfjörð“ úr 1. gr. Um þetta hélt ég, að allir gætu orðið sammála, og mér kemur það því undarlega fyrir sjónir, er form. n. vill ekki, að neinn ráði því, hvar verksmiðjan skuli reist, og leggur til, að allt svífi í lausu lofti um það atriði. Það er þess vegna fjarri því, að ég taki till aftur, og bezt, að hún sé þá frá mér, en ekki n. í heild.

Ég álít það óheppilegt að afgreiða svona mál án þess að tryggja staðinn fyrst og tel, að það hafi verið rangt að kaupa ekki tvær jarðir, sem hægt hefði verið að fá í sumar fyrir 15–20 þús. kr., en mundu nú verða margfalt dýrari. Þess eru mörg dæmi um eignarnámið, að matið vill verða hærra, þegar það er framkvæmt eftir á. T.d. var landið, sem fór undir flugvöllinn, metið á fleiri millj. af hæstarétti, eða eins hátt og mögulegt var, er mannvirkin höfðu verið gerð. Ég legg því ekkert upp úr slíku yfirmati. Og ég tel það rangt að hefja framkvæmdir áður en gengið er hreint frá slíku og láta svo meta landið með tilliti til þess, að mannvirkin séu risin. Það gæti farið svo í þessu tilfelli, að ríkið þyrfti beinlínis að kaupa sandinn, og þarf að hafa allt á hreinu um það, áður en hafizt er handa.

Ég tel það engum vafa bundið, að Önundarfjörður sé langheppilegasti staðurinn. Það er langt frá því, að Bíldudalur þoli t.d. samanburð við Flateyri, og sama er að segja um Patreksfjörð, að það er hæpið, hvort þar sé nægilegt vatn eða kísilsúr sambönd. Og sandinum er svo háttað við Vatnsfjörð og Tálknafjörð, að það þarf að hreinsa hann meira og þar að auki að blanda hann, til þess að fá rétt efnahlutföll. Ég tel því engum vafa undirorpið, að Önundarfjörður sé heppilegastur þessara staða, og hvað hreinsun á sandinum þar snertir, þá er mér nóg, að það liggja fyrir úrskurðir um það bæði frá Danmörku og Ameríku, að það er auðvelt að hreinsa hann hvort heldur er með útþvotti eða segulmagni.

Hvað rannsóknaráð snertir, þá hafa þessir menn starfað undir því, og það lýsir nánast sagt ekki mikilli árvekni hjá ráðinu, sem setur mennina í þessi störf, ef það er rétt, sem hv. þm. Barð. segir, að það hafi ekki hugmynd um, hvernig þau hafi verið unnin.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta öllu fleiri orð, en vænti þess, að með þessari brtt. sé samkomulag tryggt og hv. þm. Barð. geti fallizt á það, er staðarákvörðun hefur verið numin brott, að þá verði að láta einhverja velja staðinn og þá væntanlega verksmiðjustjórn í samráði við ráðh. eða þá ráðuneytið, sem kann að vera öruggara en að fela það einum manni, en þá virðist mér líka, að hér sé nógu tryggilega um búið.

Hitt er annað mál, að ég hef enga trú á, að við fáum ódýrara sement með þessu, en á hinu hef ég trú, að það verði okkur hagkvæmt gjaldeyrislega að framleiða sementið sjálfir og í öðru lagi visst öryggi í því að hafa það í landinu sjálfu, eins og allt er nú í heiminum. Ég fylgi því frv., þótt ég hafi ekki trú á, að það verði ódýrara en það sement, sem þaðan er fengið, sem það er brotið hreint úr jörðu.