15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

135. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Mér þykir líklegt, að allir hv. dm. hafi kynnt sér þær breytingar, sem felast í þessum bráðabirgðalögum, sem sett voru til breytinga á l. um dýrtíðarráðstafanir, og ég geng út frá, að óþarft sé að rekja að ráði þær breytingar, sem þannig hafa verið gerðar, en ég skal gera þetta með nokkrum orðum.

Við 41. gr. er gerð sú breyting, að úr henni eru felld orðin „án frádráttar nokkurs kostnaðar, þar með talið andvirði vöru seldrar í umboðssölu, svo og tilboðasöfnun“, en í þessari 1. málsgr. 41. gr. er verið að tala um, að söluskatt skuli greiða af heildarandvirði seldrar vöru og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, en síðan koma þau orð, sem niður eru felld og vitnað hefur verið í. Þetta er fellt niður af því, að það er ekki framkvæmanlegt, og næsta breyting gripur yfir þetta atriði, sem hér er fellt niður. Hún er, eins og hún ber með sér, við 1. tölul. 42. gr., að í staðinn fyrir orðin „af heildsölu og smásölu 2%“ kemur þessi setning: „Af tollverði allrar innfluttrar vöru, að viðbættum aðflutningsgjöldum og áætlaðri álagningu 10% — tíu af hundraði — skal greiða 2%“, og er hér verið að ræða um álagningu söluskatts. Ákvæðið, eins og það var, þótti ekki hentugt í frv., og því er því breytt í einfaldara form. Ég hef þó ekki kynnt mér, hvort orðið „tollverð“ er skýrgreint í lögum, en það er vitað mál, hvað hér er átt við, það er verð vörunnar keyptrar til landsins að viðbættum tolli.

Þriðja breytingin, sem felst í þessum bráðabirgðalögum, er sú, að síðasta málsgr. 42. gr. laganna, 2. tölul., hljóðar svo sem þar er tiltekið, og ef menn bera þetta saman við liðinn, eins og hann er í upphaflegu lögunum, eins og gengið var frá þeim af Alþ., þá stendur þar „sölu þeirra, sem eru ekki bókhaldsskyldir, sbr. lög um bókhald, nr. 62 11. júní 1938“. Við þetta er bætt þessari setningu: „Undanþága þessi nær þó eigi til þeirra, sem greiða söluskatt við innflutning vara samkv. 1. tölul. 42. gr.“. En ef þessu væri ekki bætt við, þá yrði þessi undanþága allt of víðtæk, sú undanþága, sem í þessu felst.

Fjórða breytingin er í því fólgin, að bætt er inn í nýju ákvæði framan við 44. gr., og þarf það engrar skýringar við, og 5. breytingin er í samræmi við það, sem áður er talið, að upphaf 46. gr. orðist svo: „Verð vöru og þjónustu“.... og er þá bætt inn orðinu „þjónustu“ í sambandi við það, sem áður er tekið fram.

Þá kem ég að sjöttu breytingunni, og væri nú gott, ef hæstv. fjmrh. gæti verið viðstaddur, því að í þessu sambandi þyrfti að liggja fyrir yfirlýsing frá honum. Þessi breyting er við 47. gr. Fyrri helmingur greinarinnar er orðaður eins og í lögunum um dýrtíðarráðstafanir, nema bætt er inn orðunum „og vissar vörutegundir og þjónusta“, en síðan er bætt inn í greinina þeirri málsgr., er ég les nú: „Ráðherra er einnig heimilt að ákveða, að ríkisstofnanir eða aðrir skattfrjálsir aðilar, sem sel.ja sams konar vörur eða þjónustu sem um ræðir í 41 gr., skuli greiða söluskatt samkv. lögum þessum“. Þetta var talið nauðsynlegt, að setja þessi ákvæði, til þess að ríkisfyrirtæki, sem selja sams konar vörur og einstaklingar, hefðu ekki aðra aðstöðu en einkafyrirtæki í samkeppninni, og hefur n. ekkert við það að athuga. Hins vegar koma hér til athugunar önnur atriði. Það er svo áskilið í l. um dýrtíðarráðstafanir samkv. ákvæðum í 42. gr., að eigi skuli greiða söluskatt af sölu þeirra vara, sem þar eru taldar upp, andvirði mjólkur og mjólkurafurða, garðávaxta, kjöts, fisks o.s.frv. Nú hefur það átt sér stað vegna þeirrar breytingar, sem gerð var með bráðabirgðalögunum, að fjármálaráðuneytið hefur krafið Grænmetiseinkasölu ríkisins um söluskatt, en samkv. lögunum frá Alþ. og þeim ákvæðum 42. gr., sem ég hef nú lesið, eru garðávextir undanþegnir söluskatti. Ég held, að þetta sé því á einhverjum misskilningi byggt, sennilega farið eftir frv. að lögum þessum, eins og það kom til þessarar hv. d., en hér var því breytt og orðinu „garðávaxta“ bætt inn í. En það er augljóst mál, að ráðuneytið brestur heimild til að innheimta. skatt af garðávöxtum, því að þó að nýtt ákvæði sé sett inn í 47. gr. samkv. bráðabirgðalögunum um heimild fyrir ráðh., feilir það ekki úr gildi sérákvæðið í 42. gr., eins og gengið var frá því hér í lögunum, jafnvel þó að það ákvæði sé yngra en sérákvæðið. Hæstv. fjmrh. hefur lofað, að þetta skuli verða leiðrétt í framkvæmd, og enn fremur, að ekki skuli lagður söluskattur á erlendan áburð, enda er það í samræmi við aðrar undanþágur í 42. gr., þar sem yfirleitt er heimilað að veita undanþágu frá að greiða söluskatt af vörum, sem notaðar eru við framleiðsluna. Það er því óeðlilegt að leggja söluskatt á vörur, þar sem hann kemur í verulegum atriðum niður á framleiðslunni. Það var því rætt um að gera ekki neinar breytingar við bráðabirgðalögin, hvorki varðandi garðávextina né áburðinn, heldur aðeins fá yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh. um það, hvernig þetta mundi verða framkvæmt. Með þessum formála get ég mælt með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.