16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

135. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. telur sig ekki geta fylgt n. að málum að öllu leyti varðandi þetta frv. og talaði hér fyrir brtt. varðandi söluskattinn og benti á um leið, að frv. hefði verið hroðvirknislega samið. Það er nú svo um frv. um söluskatt, að það hefur mörg ákvæði inni að halda, og það, sem hefur orðið til þess að breyta þurfti þessum ákvæðum um söluskattinn, var, að nokkur vafi virtist vera á því, hvernig hægt væri að ná söluskatti af ýmsum svo kölluðum umboðssöluvörum, og það var eiginlega ástæðan til þess, að frv. var flutt. Ég held, að ég hafi lýst því við 2. umr. þessa máls, hvað því hafi valdið.

Hv. 4. landsk. ber svo fram brtt. við frv., eins og hann hefur lýst. En þessi skattur er í heild sinni ákaflega óverulegur og annað það, að þörfin fyrir þessar tekjur í sambandi við fiskábyrgðarl. er mjög mikil. Og í þriðja lagi er það, að ákvæðin um að undanskilja efnivörur til iðnaðar yrðu, að minni hyggju, dálítið erfið í framkvæmdinni. Því að þótt stundum megi á það benda, að varan sé eingöngu efnivara til iðnaðar, þá er samt sem áður svo um fjöldamargar vörur, sem fluttar eru inn, að þær eru notaðar til hvors tveggja, bæði sem iðnaðarvörur og einnig beinlínis fyrir notendur, alveg án þess að iðnaður komi þar til greina.

Hv. þm. kvartar fyrir hönd iðnaðarins í landinu undan afskiptum hins opinbera. Það kann að vera, að einhverjar greinar iðnaðarins hafi verið hafðar útundan, en margar iðngreinar hafa ekki þurft að kvarta fram að þessu. Hitt er vitað, að með takmörkun á innflutningi verður iðnaðurinn eins og verzlunin og einstaklingar allir fyrir áhrifum þeirrar takmörkunar. En allar þessar takmarkanir koma fyrst og fremst af gjaldeyrisskorti. Það gerir víst engin ríkisstj. að gamni sínu að takmarka innflutning, sem hefur stórminnkandi tekjur fyrir ríkissjóð í för með sér.

Þar sem nú er hér um mjög óverulegan skatt að ræða og einnig, að ef fallizt væri á þessa undanþágu, þá kemur enn upp — ekki kannske alveg hliðstæður, en nokkuð svipaður — ágreiningur um framkvæmd l. eins og var áður en þessi bráðabirgðal. voru sett varðandi umboðsskattinn, þá verð ég samt, þó mér þyki það leitt, að mæla gegn þessari brtt. hv. 4. landsk., sem mér virðist frekar hafa verið flutt af prinsip-ástæðum en að hann viti ekki eins vel og ég, að hér er ekki um neinn tilfinnanlegan skatt eða mismun að ræða.