16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

135. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var að tala um erfiðleika, sem iðnaðurinn ætti við að búa vegna takmarkana á innflutningi hráefna, sem stöfuðu af gjaldeyrisskorti. Það getur verið deilt um það. þegar gjaldeyrisskortur er, hvaða vörum eigi fyrst og fremst að takmarka innflutning á. En ég held, að þær vörur, sem sízt eigi að grípa til takmarkana á innflutningi á, séu efnivörur til íslenzks iðnaðar, sem á annað borð á rétt á sér, enda er það hæpinn gjaldeyrissparnaður, eins og hver maður sér. — Þá sagði hæstv. ráðh., að þessi söluskattur væri óverulegur og munaði ekki miklu. Það er nú svo. En samt sem áður veit ég til þess, að ýmsar greinar iðnaðarins telja sig muna þetta nokkuð. Hins vegar, sé það rétt, að þessi skattur sé óverulegur, þá ætti ríkissjóð ekki að muna neitt sérstaklega um að missa hann. En hæstv. fjmrh. talaði einmitt um það, að hann mælti á móti brtt. af því, að þörfin væri svo mikil fyrir skatttekjur handa ríkissjóði. En sé hér um óverulegan hlut að ræða, skilst mér, að það ætti ekki að koma mjög hart við ríkissjóðinn. þó að þetta yrði fellt niður. Það, sem hæstv. ráðh. aðallega sagði á móti þessari niðurfellingu skattsins, var, að erfitt væri að framkvæma þessa niðurfellingu vegna þess, að vörur væru sumar hvort tveggja í senn efnivörur til iðnaðar og svo notaðar til annarra hluta jafnframt, svo sem til almennrar neyzlu. Ég get ekki skilið, að þetta þurfi að valda svo ákaflega óyfirstíganlegum erfiðleikum. Í framkvæmdinni mundi þetta verða þannig, að reglugerð mundi verða gefin út, þar sem þetta kæmi fram. Og um þær vörur, sem eru efnivörur til iðnaðar, en að einhverju leyti notaðar til annars, þá sé ég ekki, að við það væri svo stór skaði skeður, þó að niður félli söluskattur af þeim, að það ætti að vera nægileg rök fyrir því að létta ekki þessum skatti af iðnaðinum.