15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Hv. þm. hafa nú vikið að mér nokkrum fyrirspurnum í sambandi við þetta frv., og skal ég fúslega upplýsa það, sem ég get upplýst af því, sem þeir hafa spurt um. Hv. 4. landsk. þm. spurði, hve mikið væri hugsað af láninu innlent og hve mikið í erlendum gjaldeyri, og enn fremur, hvort fyrirhugað væri, að þessi lántaka stæði í sambandi við svo kallaða Marshall-áætlun. Ég skal geta þess, að því var þetta orðalag haft að tala um innlendan eða erlendan gjaldeyri, að ekki var og jafnvel er enn ekki vitað, hvort ríkið sjálft þurfi beinlínis að taka lánið ytra eða það verður gert fyrir milligöngu bankanna. Gæti þá, ef um milligöngu bankanna væri að ræða, lánið orðið innlent að því leyti. Og við það var orðalagið miðað, er talað er um innlent lán. En ef ríkið sjálft verður að vera lántakandinn ytra, þá var um það sett heimildin til, að ríkið tæki lánið í erlendum gjaldeyri. — Að því er snertir síðara atriðið, sem hv. 4. landsk. þm. spurði um, hvort þessi fyrirhugaða lántaka sé í sambandi við Marshall-áætlunina, þá get ég svarað því neitandi. Það á blátt áfram að reyna að fá venjulegt lán, eins og hv. þm. orðaði það, með einhverjum skynsamlegum afborgunarskilmálum og vöxtum, eftir því sem um kann að semjast, í þessu sérstaka skyni, til kaupa á þessum tækjum. (BrB: Og eru engin önnur skilyrði heldur en þessi venjulegu skilyrði?) Það hefur ekki verið til þess stofnað af okkur, sem þetta höfum hugsað. Ég get gjarnan sagt það eins og það er, að það hefur verið talað við Landsbankann um lán og það hefur verið falið sendiherra landsins í Washington að rannsaka möguleika fyrir því að fá þetta lán í þessu skyni. Og ég get bætt því við, að um niðurstöður er enn ekki vitað í þessu efni.

Hv. þm. Barð. spurði um það, hve mikill sé hluti ríkissjóðs í láninu, hve stóran hlut ríkissjóður eigi eða ætli sér að eiga í þessum félagsskap, sem ég minntist á, og hvort ríkissjóður ætlaði sér að eiga í öllum þeim verksmiðjum, skildist mér, sem ég var að tala um hér syðra, og hvort hugsað væri um að kaupa skip samkvæmt fregn í Vísi. Enn fremur spurði hann um, hversu mikið tap hefði orðið á rekstri síldarverksmiðjanna í sambandi við þennan vetrarrekstur þeirra og hve mikið hafi verið greitt í erlendum gjaldeyri vegna flutninga á síld til Norðurlandsins. — Út af þessu vildi ég mega taka fram, að það getur vel farið svo, að ríkissjóður verði beinlínis að heita þarna lántakandinn. En það er ekki meiningin, að ríkissjóður ætli að lána, hvorki einum né öðrum af þessum mönnum, nema ekki sé annar kostur fyrir hendi til að tryggja það, að hlutaðeigandi verksmiðja komist upp. Það væri þá bara af því, ef ríkissjóður yrði þarna lántakandinn, að það væri bezta leiðin til þess að fá lánaðan þennan erlenda gjaldeyri. Vitanlega yrði hann svo til ráðstöfunar fyrir þjóðbanka landsins að því leyti sem sá banki gæti lagt fram í íslenzkum peningum handa þeim aðilum, sem hefðu samþykki innflutningsyfirvaldanna fyrir gjaldeyris- og innflutningsleyfum til þess að afla þessara tækja, sem um er að ræða. Sama gildir auðvitað um aðra banka, ef þeir lána mönnum til að afla tækjanna. Höfuðmarkmið lántökunnar er að tryggja landsmönnum betri aðstöðu en nú til að veiða og hagnýta síld hér sunnanlands eins og annars staðar, og verður leitazt við að gera það eftir öllum færum leiðum og erfitt að leggja nú neina fasta reglu í því efni. Verði ríkissjóður sjálfur að veita lánin, munu þau auðvitað verða tryggð forsvaranlega. — Að því er það snertir, hversu stóran hlut ríkissjóður eigi í félaginu, sem hv. þm. minntist á, þá er það ekki hugsað þannig, heldur hafa síldarverksmiðjur ríkisins fengið leyfi ráðuneytisins til þess að verða að einum fjórða hluta þátttakandi í þessu félagi. Mér skilst, að það sé þannig, að útgerðarmenn hér ýmsir eigi einn fjórða hluta og Óskar Halldórsson, sem leggur til vélarnar, eigi einn fjórða hlutann, Reykjavíkurbær einn fjórða hluta og síldarverksmiðjur ríkisins einn fjórða hluta. — Út af spurningunni um það, hvort áformað sé að kaupa skip það, sem dagblaðið Vísir getur um, þá verð ég að segja það, að ég er ekki stjórnarmeðlimur í þessu félagi, sem um þetta er stofnað, og hef engin afskipti af því, hvað um kaup þess skips er ákveðið, sem hugsað er sem síldarbræðsluskip. Hitt hefur mér verið tilkynnt, að þeir, sem að þessum skipskaupum standa, eigi kost á að fá keypt skip fyrir eitthvað um 200 þús. dollara, sem að vísu sé gamalt, en hafi verið kostað miklu upp á, árið 1943 að mig minnir. En hvort búið er að kaupa þetta skip, það er mér ókunnugt um. Hitt veit ég, að sá maður hér á landi, sem talinn er að vera mjög fróður í þessum efnum og stendur sjálfsagt mjög mikið jafnfætis hv. þm. Barð. að þekkingu á skipum, skipaverkfræðingurinn Ólafur Sigurðsson, hann hefur farið, eftir því sem mér er bezt kunnugt, á vegum þessa félagsskapar til Ameríku til ráðuneytis við þann mann, sem stendur í útvegun fyrir félagið, sem er Jón Gunnarsson forstjóri. — Þá var það tapið, sem síldarverksmiðjurnar munu hafa orðið fyrir í sambandi við síldarflutningana og síldarvinnsluna á síðustu haustvertíð. Um það get ég ekki upplýst á þessu stigi málsins, af þeirri einföldu ástæðu, að það verður ekki séð, fyrr en búið er að selja þær afurðir, sem framleiddar voru þá. Og það er ekki víst enn, fyrir hvað þær verða seldar, þ.e.a.s. sá hluti þeirra, sem óseldur er. Það hefur verið selt talsvert mikið af mjöli, en það gefur ekki grundvöll til þess, að maður geti lagt niður fyrir sér útkomuna í heild. En það er mjög líklegt, að það fari aldrei svo, að það verði ekki tilfinnanlegt rekstrartap hjá síldarverksmiðjum ríkisins á vinnslu þessarar síldar. Og hversu mikið hefur verið greitt af flutningskostnaði síldarinnar, sem veiddist á haustvertíðinni, í erlendum gjaldeyri, er mér ókunnugt. En ég veit, að það hlýtur að vera mjög mikið, þar sem þessi þrjú skip voru í flutningum á síldinni, „hnútarnir“ ameríkönsku, fyrir utan þau skip, sem fengin voru til þessa og greitt var í sterlingspundum. En um greiðslu í erlendum gjaldeyri yfir höfuð til þessara hluta er mér ókunnugt. Ég hef ekki fengið skýrslur um það frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Og satt að segja hef ég ekki innt eftir að fá að vita það nákvæmlega.

Þá spurði hv. 1. þm. N-M. um það fyrst, hvort athugað hefði verið um hina nýju aðferð við vinnslu á efnum úr síld, og á hann þá sjálfsagt við það, sem við höfum heyrt og lesið um hér í blöðum, að það kvað vera komin upp enn ný vinnsluaðferð á síld, sem talið er, að gefi betri árangur heldur en gamla aðferðin. Og enn fremur spurði hann um, hvort ekki þyrfti að taka miklu stærra lán í erlendum gjaldeyri, og minntist hann í því sambandi á lánsfjárþörf Skipaútgerðar ríkisins og Eimskipafélags Íslands og lán fyrir sementsverksmiðju, sem hér hefur verið áformað að koma upp. Um þetta síðara atriði skal ég segja, að hvað Eimskipafélagið snertir, þá veit ég ekki til, að það félag sé í sérstakri lánsfjárþörf. Þeir munu hafa fengið sérstakt lán í Ameríku fyrir það félag, ég held sem svarar helmingi byggingarverðs hins nýja skips félagsins, Tröllafoss, sem nú er á leiðinni til Íslands, má ég segja, því að ég heyrði það í kvöld, að hann hefði farið í gegnum Panama-kanalinn rétt nýlega, og má segja, að hann sé á heimleið. Þess vegna býst ég ekki við, að Eimskipafélag Íslands þurfi neitt lán frá ríkinu eða neina hjálp frá því til að fá lán, þar sem það hefur bjargað sér þannig á land sjálft með sitt stóra skip. Og að því er snertir þau skip, sem það félag hefur í smíðum í Danmörku, þá ætla ég, að Eimskipafélag Íslands hafi verið búið fyrir nokkuð löngu að fá yfirfærða þá peninga a.m.k., sem þar eru notaðir. Um Skipaútgerð ríkisins er öðru máli að gegna. Það er þannig með byggingu á þessum nýju strandferðaskipum ríkisins og enn fremur Esju, að ríkissjóður hefur verið látinn standa undir þessu öllu allt til þessa. Það má að vísu til sanns vegar færa, að þörf væri að fá einhver lán út á þau skip, því að það er, bæði hvað gjaldeyri snertir og líka hvað ríkissjóð snertir, þungt að standa undir þeim framkvæmdum án þess að fá lán, þannig að teknar séu ákvarðanir til þess að létta undir í þessum efnum. Og í raun og veru væri ekki óeðlilegt, þó að þau lán væru látin hvíla að einhverju leyti á þessum skipum. Það væri þörf á að fá lán út á þau skip. Í raun og veru er ekki óeðlilegt, þó að einhver lán séu látin hvíla á þessum skipum. Það hafa farið fram athuganir á því, hvort lán fengist, t.d. í Englandi, út á það að byggja skip fyrir Ríkisskip, og veit ég ekki til, að niðurstöður liggi fyrir, svo að hægt sé að segja með vissu um það, og tel ég óvíst, að slíkt lán fengist. En maður gæti nú sjálfsagt sagt, að þörfin væri mikil fyrir að fá lán. Það er víst sannleikur. En fyrir okkar augum var hér um bæði þörf að ræða, og einnig er þarna um síldarvinnslutæki að ræða, sem við teljum, að við þurfum mikils að meta. Og þess vegna var ekki farið með þessa hugmynd út yfir stærra svæði en hér er gert í frv. og ég hef þegar lýst fyrir dm. Það er enn óvíst, hvort þetta lán fæst, og held ég, að það sé rétt að bíða með að hugsa um stærri lántöku í þessu efni.

Ég veit ekki, hvaða vinnsluaðferð þeir hafa hugsað sér, sem hafa í hyggju að bæta hér við verksmiðju, veit ekki heldur, hvort þessi nýja vinnsla er búin að festa svo rætur og búin að fá þá reynsluprófun, að hægt sé á þessu stigi málsins að segja um það. Ég held líka, að sá dráttur, sem af því kynni að verða að fá þess háttar nýmæli komið í kring við allar verksmiðjur, kynni að fara þannig með þennan tilgang, að hann rynni út í sandinn, en tilgangurinn, sem hér er um að ræða, er sá aðallega að gera þarna þau tiltök með vinnslumöguleikum á þessu sviði sem haustvertíðin fengi gagn af. Og mér er sagt af kunnugum mönnum, að ef þeim tilgangi eigi að ná, þá megi ekki mikinn tíma missa, ef verksmiðjan eigi að koma að gagni næsta haust. Um skipið og stærð þess og möguleika á að koma því í þurrdokk er ég ekki fær um að gefa teknískar upplýsingar, því að ég hef ekki þekkingu til að bera um, hversu því megi við koma. En hins vegar standa svo margir áhugamenn að þessari hugmynd um að koma upp þessu svo kallaða síldarbræðsluskipi og hafa fengið sér til þess ráðunauta, tæknilega lærða menn, suma af þeim beztu, sem völ er á hér á landi, og má segja, að þeir hafi vit á því, hvað verið er að fara þarna út í.

Þm. minntist þess, að ég hef m.a. flutt hér till. í þessa átt um síldarbræðsluskip, en ég veit, að ég hef ekki byrjað með þessa hugmynd. En hitt er víst, að erfiðleikarnir í sumar og nú hafa komið mörgum mönnum af stað til að skrifa blaðagreinar og flytja till. hér á Alþ. um það mál og þetta hugtak, fljótandi síldarvinnslustöð. Ég kann ekki alveg að rekja það, hverjir hafa hreyft þessu fyrstir, en það fyrsta, sem ég man, er, að 4. þm. Reykv. (GÞG) flutti um þetta þáltill. og síðar flutti ég hér frv. Í öllum þessum till. og frv. var það hugmyndin að reyna að leysa þetta mál með fljótandi verksmiðju. Ég gerði það í rauninni að gefnu sérstöku tilefni með Hvalfjarðarsíldina. En eftir því, sem lagt hefur verið fram síðan, þá er t.d. sú hugmynd, sem ég var með, ekki aðgengileg frá ýmsum bæjardyrum skoðað. En nú hafa stjórnir síldarverksmiðja ríkisins og Reykjavíkurbæjar fallizt á að kaupa stærra skip, sem gæti haft vélar og geymslupláss um borð fyrir lýsi og mjöl. Vitanlega hefði verið hægt að koma vélunum fyrir í Lagarfossi, en þá hefði ekkert geymslupláss verið, svo að hann hefði orðið að vera tengdur við land. En þarna komu menn inn á aðra hugmynd, sem sérstaklega þótti glæsileg og mjög haldið fram. að verði ódýrari heldur en það, sem vakti fyrir okkur með að flytja frv. um Lagarfoss. Og svo er ekki hægt að ganga fram hjá því, þegar svona stór félagsskapur kom sér saman um þessa hugmynd og gat tryggt sér vélar Óskars Halldórssonar, sem þegar eru til í landinu, þá var það sýnilegt, að það hefði ekki verið rétt gert af mér né öðrum að tefja fyrir framgangi málsins með því að halda til streitu einhverju öðru, þó að við sjálfir höfum verið fyrri til að koma því á pappír. Það varð þess vegna mest að meta í mínum augum að ná skynsamlegri lausn á þessu máli og sérstaklega, að það gengi greiðlega með því að veita atbeina þessum félagsskap, sem stofnaður var eingöngu með þetta verkefni fyrir augum.

Ég held þá, að ég hafi leitazt við að gefa skýringar við því, sem alþm. hafa beðið um, og ég vona, að ég hafi leyst svo þolanlega úr þeim, að þeir fái við unað.